Aðal­fundur Ís­lands­banka var haldinn í dag. Birna Einars­dóttir, banka­stjóri Ís­lands­banka, gerði grein fyrir reikningum fé­lagsins og helstu þáttum í starf­semi bankans á árinu. Birna fór einnig yfir það að minnis­stætt ár væri að baki þar sem við­skipta­vinir bankans stóðu frammi fyrir stórum á­skorunum á árinu.

Hún sagði frá því að á tíma­bili hafi þurft að loka úti­búum bankans vegna far­aldursins en bankinn hafi engu að síður lagt á­herslu á að þjónusta við­skipta sína. Í máli Birnu kom einnig fram að stór hluti starfs­fólks hafi sinnt vinnu sinni heima á árinu og hafi verk­efna­miðuð vinnu­að­staða við flutning höfuð­stöðva í Norður­turn komið sér vel.

Í á­varpi sínu sem for­maður stjórnar Ís­lands­banka, sagði Hall­grímur árið 2020 hafa verið erfitt á margan hátt. Það var árið sem tekist var á við heims­far­aldur og landið meira og minna lokaðist. Hall­grímur sagði Ís­lands­banka í þessu á­standi hafa lagt mikla á­herslu á að styðja við fyrir­tæki og ein­stak­linga í sam­ræmi við hlut­verk bankans, að vera hreyfi­afl til góðra verka.

Hann greindi frá því að 1.500 heimili og 650 fyrir­tæki hefðu nýtt sér úr­ræði um tíma­bundin greiðslu­hlé og lengingar lána á árinu.

Í ljósi mót­lætisins vegna heims­far­aldursins sagði Hall­grímur að það yrði að telja að rekstur Ís­lands­banka hafi gengið vel á liðnu ári og af­koma verið við­unandi.

Hann fjallaði einnig um aukna raf­ræna þjónustu sem að bankinn þurfti að bjóða upp þegar far­aldurinn stóð sem hæst og að hann hafi jafn­vel flýtt fyrir þróun raf­rænna sam­skipta.

Hall­grímur bar upp til­lögur til aðal­fundar, sem meðal annars fólu í sér að 3,4 milljarðar króna af hagnaði ársins 2020 verði greiddir í arð til ríkisins, breytingu á starfs­kjara­stefnu og stjórn bankans.

Niður­stöður aðal­fundar og til­lögur sem voru lagðar fyrir fundinn má finna á heima­síðu hans hér.