Á morgun opnar nýtt bað­lón í Kárs­nesinu. Á­ætlaður fram­kvæmda­kostnaður lónsins var um fimm milljarðar og er á­ætlað að það skapi um 110 ný störf. Að­gangur að lóninu er tvenns konar, ó­dýrari að­gangurinn mun koma til með að kosta 8.500 krónur en er nú á til­boði tíma­bundið og er á 5.990. Dýrari að­gangurinn er á 9.900 krónur á til­boði tíma­bundið en mun koma til með að kosta 13.900 á fullu verði.

Báðum að­göngum fylgir sjö þrepa spa-að­gangur en munurinn á dýrari og ó­dýrari að­ganginum er að í þeim dýrari fá gestir að­gang að sér­klefa til að klæða sig og sér sturtu. Í þeim ó­dýrari fara allir í sama sturtu­klefa en nærri allir eru þó lokaðir.

„Það er svo mikið af fólki sem er ekki vant því að fara al­mennings­búnings­klefa og vill það ekki. Svo erum við að horfa á fyrir­tæki sem bjóða kúnnum og annað. En nekt er ekki allra. En hvað varðar heima­markaðinn sjáum við alveg fram á að nýti sér al­mennings­klefana,“ segir Dag­ný Péturs­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Sky Lagoon.

Börn greiða helming af verði í hvorn að­ganginn en það er 12 ára aldurs­tak­mark í lónið.

„Við vildum búa til stað þar sem hægt er að koma til að njóta. Yngri kroppar eru ekki endi­lega gerðir fyrir svona heitt vatn og hafa ekkert í með­ferðina að gera. Við erum búin að prufu­keyra þetta og það var mjög al­geng at­huga­semd að fólki fannst heldur ekki við­eig­andi að börn væru hér, enda er nóg af bað­laugum sem börn geta farið í,“ segir Dag­ný.

Á myndinni má sjá skápana og búningsherbergið sem fólk fær aðgang að í ódýrari aðganginum.
Fréttablaðið/Valli
Með því að greiða meira færðu aðgang að einkaklefa til að skipta um föt og fara í sturtu.
Fréttablaðið/Valli

Sjö þrepa spa-að­gangur

Hún segir að inni­falið í að­ganginum sé hand­klæði og það sé hægt að leigja sund­föt þannig fólk geti hrein­lega bara mætt detti því það í hug.

Sjö þrepa að­gangurinn er þannig að fyrst gengur fólk í lónið sjálft þar sem er hinn marg­um­talaði 75 metra ó­endan­leikakantur. Úr því er farið í kaldan pott og svo í þurrgufu með glugga með út­sýni yfir hafið, og nú eld­gosi. Eftir að hafa verið í þurrgufunni er farið í svo­kallaða rigningar­sturtu til að kæla sig. Eftir það er boðið upp á salt­s­krúbb sem er úr möndlu­olíu og salti, og er því vegan. Þegar skrúbburinn er kominn á er fólki svo boðið að fara í saunu með hann og svo í sturtu að skrúbba hann af.

„Húðin verður eins og á barns­rassi eftir á, alveg frá­bært,“ segir einn starfs­maður lónsins um upp­lifunina.

Fólk fái alla upp­lifunina

„Við ræddum á sínum tíma hvort við ættum að hafa spa-að­ganginn sér en komumst að þeirri niður­stöðu að við vildum það ekki. Við viljum gefa fólki alla upp­lifunina og allan á­vinninginn. Þér líður svo vel í líkamanum eftir að koma auk þess sem húðin verður svo fín. Þannig við á­kváðum bara að fara alla leið,“ segir Dag­ný

Vatnið í lóninu er hita­veitu­vatn frá Nesja­völlum og er um 39 gráðu heitt. Að sögn Dag­nýjar eru þau að leika sér að því að hafa mis­munandi hita­stig hjá, til dæmis, barnum og hjá fossinum.

„Það er að­eins kaldara hjá fossinum og heitara í víkinni,“ segir Dag­ný.

Fólk má vera eins lengi og það vill ofan í lóninu og fara oftar en einu sinni í gegnum spa-ferða­lagið sem Dag­ný telur að taki um 20 til 25 mínútur.

Hún segir að það sé magnað að vera ofan í lóninu og hlusta á kyrrðina og átta sig svo á því að maður er á miðju höfuð­borgar­svæðinu.

„Þetta er magnað og þetta panor­ama-út­sýni sem við erum með líka. Sólin sest einum megin og svo hinum megin ertu með beint út­sýni á eld­gosið,“ segir Dag­ný.

Dagný segir að þau vilji að fólk komi til að njóta og slaka á. Það megi fara eins oft og það vill í gegnum spa-aðganginn.
Fréttablaðið/Valli

577 skápar

Bað­lónið er ein stærsta fram­kvæmd sem tengist ferða­geiranum hér á landi í seinni tíð. Á­ætlaður fram­kvæmda­kostnaður þess var um fimm milljarðar króna og mun það skapa um 110 ný stöðu­gildi.

„Það eru núna um 60 starfs­menn en þegar við erum komin í fulla keyrslu verða þetta 110 stöðu­gildi, en lík­lega um 140 starfs­menn því við erum með mikið af kvöld- og helgar­fólki. Við erum búin að manna og erum að fara hægt af stað. Við verðum að sýna virðingu fyrir á­standinu, það gæti auð­vitað verið lokað í næstu viku,“ segir Dag­ný og vísar til heims­far­aldursins.

Hún segir að þau megi, eins og aðrir bað­staðir, að­eins vera með helming leyfi­legs há­marks­fjölda en þau ætli að fara neðar í byrjun. Þau eru með 577 skápa og mega því vera með um 289 manns. Svæðið er um 1.500 fer­metrar en úti­svæðið í heild er um 2.000 fer­metrar.

Dag­ný segir að þau hafi á fram­kvæmda­tímanum á­kveðið að fljúga alveg undir radar og ekki birt neinar myndir af fram­kvæmdunum.

„Við viljum fá fólk á staðinn og þau upp­lifi þetta sjálf. Þú nærð þessu aldrei alveg á mynd,“ segir Dag­ný og segir að bókanir gangi vel og það séu nú þegar um 1.200 manns búin að prufu­keyra lónið.

Hér að neðan má sjá fleiri myndir af lóninu.

Þegar gengið er út í lónið er þetta það fyrsta sem fólk sér.
Fréttablaðið/Valli
Í víkinni er bar. í víkinni er hitastigið aðeins hærra.
Fréttablaðið/Valli
Í dýrari aðganginum færðu skáp og svo eru sérherbergi þar sem fólk getur farið í sturtu og klætt sig í einrúmi.
Fréttablaðið/Valli
Kaldi potturinn er staðsettur við lónið sjálft.
Fréttablaðið/Valli
Í þurrgufunni er eitt stærsta gler landsins sem var hannað til að þola bæði kalt og heitt.
Fréttablaðið/Valli
Útsýnið í þurrgufunni er nokkuð magnað.
Fréttablaðið/Valli
Setustofan
Fréttablaðið/Valli
Hægt er að borða eftir að maður baðar sig.
Fréttablaðið/Valli
Hér er gengið út í lónið.
Fréttablaðið/Valli