Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur móttekið 191 umsókn um hlutdeildarlán á fyrsta umsóknartímabilinu sem lauk þann 20. nóvember síðastliðinn

Þar af eru 129 umsóknir um lán á höfuðborgarsvæðinu og 62 á landsbyggðinni. Úrvinnsla umsókna er í vinnslu og stefnt er á að úthlutun ljúki fyrstu vikuna í desember. Þetta kemur fram í skriflegu svari HMS við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Rúmlega 2.000 íbúðir verða byggðar

Alls er 71 byggingaraðili búinn að skrá sig hjá HMS og eru samanlögð byggingaráform þessa aðila 2.142 íbúðir. Af þessum íbúðum eru flestar á höfuðborgarsvæðinu eða 1.260 íbúðir, en 882 eru á landsbyggðinni þar sem flestar eru á Suðurlandi og Suðurnesjum.

HMS vinnur að því að yfirfara byggingaráformin til þess að samþykkja íbúðir sem uppfylla skilyrði hlutdeildarlána um stærð og hámarksverð íbúða og er fyrirhugað að samþykki fyrir fyrstu íbúðunum liggi fyrir í þessari viku.

Rýmkaði skilyrði lánanna fyrsta árið

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, undirritaði reglugerð um hlutdeildarlánin í byrjun mánaðarins en þeim er ætlað er að hjálpa fyrstu kaupendum og tekjulágum við fasteignakaup.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason

Margir gagnrýndu reglugerðina áður en hún var samþykkt en þar var meðal annars bent á að hámarksverð nýrra íbúða í reglugerðardrögum um hlutdeildarlán væri svo lágt að erfitt yrði að finna fasteignir til sölu á höfuðborgarsvæðinu sem uppfylla skilyrðin. Aðeins er lánað fyrir nýjum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Í ljósi gagnrýnisradda ákvað ráðherra að rýmka skilyrði fyrir lánunum fyrsta árið.

Í nýju reglugerðinni er kveðið á um heimild til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, fram til ársloka 2021, til að veita undanþágu frá hámarksverði á höfuðborgarsvæðinu. Undanþágan er bundin við þau tilvik og þau svæði þar sem byggingarkostnaður er hærri en almennt gerist vegna aðstæðna á byggingarstað eða skilmála á byggingarreit.

Síðara umsóknartímabilið hófst þann 21. nóvember og stendur til og með 13. desember næstkomandi.