Orkuveita Reykjavíkur gerir ráð fyrir að vara 102 milljörðum króna í viðhald og nýjar fjárfestingar næstu sex árin. Þetta kemur fram í fjárhagsspá OR sem var samþykkt í dag. Spáin er send til Reykjavíkurborgar til umfjöllunar fyrir fjárhagsáætlun.

Engra stórra breytinga er að vænta í tekjum eða gjöldum næstu árin en stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið er allsherjaruppfærsla á orkumælum Veitna. Einnig er gert ráð fyrir byggingu nýrrar aðveitustöðvar rafmagns fyrir farþegaskip í Sundahöfn.

Gert er ráð fyrir byggingu nýrrar aðveitustöðvar rafmagns sem getur þjónað farþegaskipum í Sundahöfn.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

„Þjónusta Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaganna er umfangsmikil. Sem dæmi þá er samanlögð lengd veitulagna hátt í 14 þúsund kílómetrar eða tíföld vegalengdin í kringum landið eftir hringveginum. Þessum kerfum öllum og virkjununum þarf að halda við og uppfæra stýringar í takti við kröfur tímans.“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri OR.

„Hagtölur sýna að búast megi við að það dragi úr vexti í samfélaginu á næstu misserum. Því getur þetta verið hentugur tími til framkvæmda. Grundvallaratriði er þó að reksturinn sé í góðu horfi því hagsýni í rekstrinum er forsenda þess að við getum staðið undir eðlilegum væntingum um að sú grunnþjónusta sem fyrirtækin í samstæðunni veita sé á sanngjörnu verði.“

Gera ráð fyrir lækkun á gjöldum

Traust staða gerir Veitum kleift að styðja við Lífskjarasamningana sem náðust á vinnumarkaði vorið 2019 og halda verðhækkunum á sérleyfisþjónustu innan þeirra marka sem samningarnir gera ráð fyrir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá OR.

Gangi verðbólguspá eftir má gera ráð fyrir raunlækkun á gjöldum Veitna fyrir sérleyfisþjónustu á árinu 2020. Verð fyrir samkeppnisþjónustu samstæðunnar ræðst á markaði en eigendastefna OR mælir fyrir um að þjónusta fyrirtækjanna sé veitt gegn sanngjörnu verði.

Verðmæti eigna ON skráð í erlendri mynt

Stjórn OR hefur stofnað sérstakt félag sem nýtur erlendra tekna og mun hafa eignir skráðar í erlendri mynt. Í tilkynningu segir að þetta muni hvorki hafa áhrif á viðskiptavini né starfsfólk. Þau segja mikilvægt að verðmæti eigna ON sé skráð í erlendri mynt vegna þeirrar áhættu sem fylgi sveiflu á gengi íslensku krónunnar.

Tekjur Orku náttúrunnar voru að meirihluta í Bandaríkjadölum frá 2014 vegna sölu á rafmagni til stóriðja. Önnur sala ON er að uppistöðu til í íslenskum krónum. Bandaríkjadalur var starfsrækslugjaldmiðill fyrirtækisins frá stofnun í samræmi við ársreikningalög.

Síðan þá hefur orðið breyting á samsetningu tekna ON þar sem lágt álverð hefur dregið úr tekjum af raforkusölu til stóriðju og vinnsla á heitu vatni fyrir hitaveituna á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist. Á árinu 2019 er minnihluta tekna ON í erlendri mynt og því ekki forsendur til þess að fyrirtækið í heild hafi erlendan starfsrækslugjaldmiðil.