Fyrirtækið 101 Productions er farið af stað með nýja leið í fjarskiptaþjónustu á Íslandi. Leiðin nefnist Sambandið og verður rekin á kerfum Vodafone en Sýn hf., eigandi Vodafone, á helmingshlut í 101 Prodctions. Í sambandinu verður boðið upp á nýjungar í fjarskiptaþjónustu líkt og gagnamagnsmillifærslur milli númera.

Fyrirtækið tilkynnti þetta á blaðamannafundi í Hörpunni í morgun en síðasta ár hefur það rekið útvarpsstöðina Útvarp 101. Þar tóku þau Svanhildur Gréta Kristjánsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps 101 og Unnsteinn Manuel Stefánsson, listamaður og meðeigandi 101 Productions til máls. „Ég kynni til leiks sambandið, símafélag framtíðarinnar,“ voru upphafsorð Unnsteins.

Tónlistarmaðurinn Flóni tók lagið Tala saman eftir blaðamannafundinn, viðeigandi val.

„Skilin eru að verða óskýr á milli fjölmiðla- og fjarskiptamarkaðarins í heiminum,“ segir Unnsteinn í samtali við Fréttablaðið eftir fundinn. „Þá er skemmtilegra að vera fjölmiðill sem getur tekið þátt í honum aktíft og fengið eitthvað út úr því líka.“

Sambandið býður upp á ódýrustu gagnamagnspakka sem eru í boði á markaði í dag. Þannig verður í boði að kaupa 10 GB af gagnamagni á 1990 krónur en til samanburðar má nefna að 1 GB hjá Símanum kostar 2.600 krónur en hjá Nova kostar 1 GB 2290 krónur. Vodafone og Hringdu bjóða ekki upp á 1 GB en 5 GB af gagnamagni hjá þeim kosta 3.190 krónur hjá Vodafone og 2190 krónur hjá Hringdu.

Unnsteinn segir vildarklúbb Sambandsins þá vera einn mikilvægasta hluta vörunnar. „Þar verður allt þetta hefðbundna, sem þekkist í dag, eins og tveir fyrir einn tilboð,“ segir hann. „En svo er það ekki síst þessi viðburðarmenning. Við verðum með miða á alls kyns tónleika og uppistönd og svona.“ Hægt verður að nálgast slíka frímiða í appinu, sem ber heitið 101 Sambandið, fyrstur kemur fyrstur fær.

Hann segir þá aðra nýjung felast í því að til að fólk geti skipt yfir í sambandið upp á eigin spýtur. Það flytur númerið sjálft yfir með hjálp appsins og setur síðan nýtt símkort í símann.