„Það væri hug­mynd að ríkið sendi á­vísun á alla Ís­lendinga til að fara út að borða eða gista eina nótt á hóteli út á landi. Allir myndu fá á­vísun í pósti og fólk yrði hvatt til að ferðast innan­lands. Til að styðja við inn­lenda ferða­þjónustu. Þegar smit eru komin í rénun,“ segir Magnús Árni Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri og stofnandi Reykja­vík Economics, spurður um hvaða frekari efna­hags­að­gerðir væri hægt að fara í til að að­stoða ferða­þjónustu­fyrir­tæki landsins á tímum kórónu­veirunnar.

Hann segir að þetta gæti verið leið til að koma til móts við ferða­þjónustuna ef nú­verandi á­stand verður ó­breytt fram að sumri. Þannig gætu Ís­lendingar ferðast innan­lands í sumar­leyfinu sínu og styrkt ferða­þjónustuna um leið. „Það mætti nýta þetta til ferðalaga innanlands en svosem líka til afborgana á skammtímalánum eða neyslu t.d vegna atvinnuleysis," segir Magnús.

Hug­myndin er ekki úr lausu lofti gripin en Ástralía fór í svipaða að­gerð í kjöl­far efna­hags­hrunsins 2008. Ástralska ríkið gaf öllum í­búum, sem þénuðu minna er 100.000 ástralska dali á ári, 900 dali til þess að eyða í inn­lend fyrir­tæki. Þá fengu barna­fjöl­skyldur einnig 950 dali í skóla­styrk fyrir börn sín.

Banda­ríski þing­maðurinn og fyrr­verandi for­seta­efni repúblikana, Mitt Rom­n­ey, kom með svipaða tillögu í gær um að allir Banda­ríkja­menn fái 1000 Banda­ríkja­dali til þess að hjálpa fjöl­skyldum og vinnandi fólki til að mæta lána­skyldum sínum og auka neyslu í sam­fé­laginu.

Magnús segir að hann sé að hugsa svipaða upp­hæð fyrir Ís­lendinga hér heima svona u.þ.b. 100 þúsund krónur á hvern vinnandi Íslending. Það myndi þá kosta ríkissjóð um 20 milljarða.

Ástandið grafalvarlegt

„Þetta fer náttúru­lega eftir því hversu lengi þessi CO­VID-19 veira verður við­loðandi,“ segir Magnús. „Sam­dráttur hjá Icelandair er fyrir­liggjandi. Þeir eru að draga úr flug­fram­boði og svo eru komin þessi ferða­bönn í Banda­ríkjunum og Schen­gen. Þá er alveg ljóst að ferða­þjónustan, sem er þriðja stoðin undir út­flutnings­greinar okkar, mun taka gríðar­legt högg.“

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála­ráð­herra, sagði í við­tali í Bítinu á Bylgjunni í morgun að gera megi ráð fyrir að halli ríkis­sjóðs muni nema 100 milljörðum króna á árinu. Án að­gerða gæti at­vinnu­leysi rokið upp í 8% og fjöldi fyrir­tækja farið í þrot. Magnús segir þetta ekki koma sér á ó­vart. „Hótelin eru tóm, flugið er tómt, þetta er graf­alvar­legt á­stand.“

Ríkis­stjórnin kynnti í síðustu viku efna­hags­að­gerðir sínar til að mæta á­hrifum CO­VID-19. Seðla­bankinn hefur lækkað stýri­vexti og þá hefur trygginga­gjaldið verið lækkað. Ríkis­stjórnin fundar í dag um frekari að­gerðir í efna­hags­málum. Er þar um að ræða að­gerðir á annari stærðar­gráðu en kynntar voru af hálfu ríkis­stjórnarinnar í síðustu viku.

Lækka vexti og leggja niður bankaskattinn tímabundið

„Ég held það þurfi meira til. Þetta gerist svo hratt, sér­stak­lega hjá fyrir­tækjum sem eru vön því að hafa sjóðs­streymi vegna ferða­manna. Það flæði stöðvast og svo koma launa­greiðslur næstu mánaða­mót. Þá eru fyrir­tæki fljótt komin í vand­ræði,“ segir Magnús. Hann segir það þurfi að lækka vexti enn frekar og leggja banka­skattinn tíma­bundið niður. „Þannig að bankarnir geta í raun lækkað vexti um­fram banka­skattinn. Það þarf mögu­lega að lækka tryggingar­gjaldið líka enn frekar í ljósi þess að það eru að koma háar launa­hækkanir núna til fram­kvæmda.“

Þá ætti Seðla­bankinn að fara í magn­bundna í­hlutun ( e. qu­antita­ti­ve easing) með því að kaupa skulda­bréf. Seðlabankinn þyrfti hins vegar að kaupa verulegt magn af skuldabréfum til þess að það myndi hafa einhver alvöru áhrif. Þá þarf einnig að tryggja ung­mennum sumar­störf í sumar, flýta vega­fram­kvæmdum og annarri upp­byggingu og tryggja lausa­fjár­stöðu bankanna.

„Það þarf að gera allt sem er skyn­sam­legt að gera. Þetta er svipað og þegar [Mario] Draghi var seðla­banka­stjóri Evrópu og sagðist ætla verja evruna með öllum mögulegum hætti. Það gaf at­vinnu­lífinu sjálfs­traust. Þannig at­vinnu­lífið og al­menningur viti að hér er verði allt gert til að verja stöðuna. Heimilin, fyrir­tækin, eldra fólkið, heil­brigðis­þjónustuna o.s.frv.“

Að lokum bætir hann við að það þurfi að vanda þá mælikvarða sem notaðir eru til að horfa á rekstrarhæfi fyrirtækja og hvaða fyrirtækjum eigi að bjarga frá gjaldþroti.

„Þar má nefna rekstrar­sögu, hlut­fall skulda og rekstrar­hagnaðar (EBITDA), o.fl. Í svona á­standi getur skapast freistni­vandi þar smæð sam­fé­lagsins getur haft á­hrif á á­kvarðanir sem eiga að vera byggðar á skyn­semi, rökum og mæli­kvörðum sem eru gagn­sæir. Fjár­hags­staða ríkis­sjóðs er sem betur fer sterk og gefur til­efni til að nýta þá stöðu sem sveiflu­jöfnunar­tæki til skamms tíma meðan þessi ó­sköp ganga yfir.“