Eigin­fjár­staða, eða eigið fé fjöl­skyldna, heldur á­fram að styrkjast og var eigið fé sam­tals um 5.176 milljarðar króna árið 2019 sem er aukning um 9,1% á milli ára. Þetta kemur fram á vef Hag­stofunnar.

Það er þó minni hækkun en síðustu ár að undan­skildu árinu 2013. Eignir aukast meira en skuldir eða um 8,6% á meðan skuldir aukast um 7,3%.

Eignir fjöl­skyldna í hæstu tíund eigna námu 3.267 milljörðum króna eða um 43,9% af heildar­eignum sem er nánast sama hlut­fall og árið 2018 (44,6%). Heildar­eignir jukust um 8,6% á milli áranna 2018 og 2019 eða úr 6.855 milljörðum króna í 7.442 milljarða króna. Eignir teljast sem allar eignir fjöl­skyldu, þar með talið fast­eignir, öku­tæki, inni­stæður í bönkum og verð­bréf.

Heildarskuldir jukust um 7,3%

Heildar­skuldir töldu 2.266 milljarða króna í árs­lok 2019 sem er aukning um 7,3% frá fyrra ári. Skuldir eru skil­greindar sem allar skuldir eða heildar­skuldir fjöl­skyldu og falla þar undir fast­eigna­skuldir, öku­tækja­lán, náms­lán, yfir­dráttar­lán og kredit­korta­lán.

Skuldir hjóna með börn jukust um 7,9% og ein­stæðra for­eldra um 7,6%. Skuldir hjóna án barna jukust um 6,3% og skuldir einstaklinga um 7,4%.

Samanlagðar skuldir fjölskyldna í hæstu skuldatíund námu 882 milljörðum króna eða um 38,9% heildarskulda.

Heimild:Hagstofa Íslands