Gjald­þrot Aur­láka, fé­lags sem áður var í eigu fjár­festisins Karls Werners­sonar, nam 1,8 milljörðum króna rúm­lega sam­kvæmt aug­lýsingu í Lög­birtinga­blaðinu. Skiptum lauk í búinu með greiðslu 346 milljóna króna eða 19,23 prósent greiðslu upp í lýstar kröfur. 

Fé­lagið var í fyrra dæmt til að greiða þrota­búi Milestone 970 milljónir króna vegna sölunnar á lyfja­verslunum Lyfja og heilsu sem seldar voru Aur­láka frá Milestone í byrjun mars 2008. 

Aur­láki var á þeim tíma í eigu bróður Karls, Stein­gríms Werners­sonar, en þrota­búið taldi að til­­­gang­ur­inn með sölunni hefði verið að koma Lyfj­um og heilsu und­an gjald­þroti Milest­one sem stjórn­end­um þess fé­lags hefði átt að vera ljóst að stefndi í. Milest­one var þá í eigu og und­ir stjórn Karls og Stein­gríms.