Gatið eftir Yrsu Sigurðardóttur er tilnefnt til Petrona-verðlaunanna í Bretlandi sem veitt eru fyrir bestu norrænu glæpasöguna.

Yrsa hlaut þessi verðlaun árið 2015 fyrir Brakið og var einnig tilnefnd fyrir Aflausn í fyrra.

Gatið kom út árið 2017 og hlaut mikið lof íslenskra gagnrýnenenda sem og erlendra. Meðal annars sagði gagnrýnandi Financial Times að Gatið væri „æsispennandi“ og bætti við: „Íslenskar nætur eru hvergi eins ógnvekjandi og í óhugnanlegum sögum Yrsu Sigurðardóttur.“

Í Gatinu finnst umsvifamikill fjárfestir látinn í Gálgahrauni, á hinum forna aftökustað sem blasir við frá Bessastöðum. Barnaverndaryfirvöldum í Reykjavík er tilkynnt um lítinn dreng sem er aleinn og yfirgefinn í ókunnugri íbúð. Og fjórir vinir óttast að leyndarmál þeirra verði afhjúpað.

Að þessu sinni eru verk eftirtalinna höfunda tilnefnd til Petrona-verðlaunanna: Anne Holt, Jørn Lier Horst og Thomas Enger, Håkan Nesser, Mikael Niemi Agnes Ravatn, auk Yrsu Sigurðardóttur.

Victoria Cribb þýddi Gatið.Í umsögn dómnefndar um Petrona-verðlaunin segir um bók Yrsu: Gatið er fjórða bókin um barnasálfræðinginn Freyju og lögreglumanninn Huldar – tvíeyki sem vill helst ekki vinna saman.

Samband þeirra léttir á stundum stemninguna fyrir lesandanum, gefur færi á svörtum húmor inn á milli, jafnframt því sem þau eru hrifin hvort af öðru. Margslungin flétta bókarinnar snýst um brenglað siðferði og hefnd: upphafið er morð sem ber merki helgiathafnar á fornum aftökustað – Gálgakletti – en við rannsókn málsins afhjúpast langvarandi misnotkun en hræðilegum afleiðingum hennar er lýst af nærfærni.“