Nikki­e de Jager, betur þekkt sem NikkieTu­tori­als á YouTu­be, greindi frá því í til­finninga­ríku mynd­bandi sem hún birti í gær­kvöldi að hún væri trans. Hin 25 ára Nikki­e er förðunar­fræðingur og hefur hún birt fjöldann allan af förðunar­mynd­böndum á YouTu­be í meira en ára­tug.

„Í dag langar mig að deila svo­litlu með ykkur, dá­litlu sem mig hefur alltaf langað að deila með ykkur einn daginn, undir mínum eigin kring­um­stæðum. En svo virðist sem að ég hafi verið svipt þeim mögu­leika,“ segir Nikki­e í mynd­bandinu áður en að hún greinir frá því að hún væri trans.

Hún greinir frá því að heimurinn sé upp­tekinn af því að skil­greina fólk og hún hafi aldrei al­menni­lega viljað skil­greina sig. „Það er árið 2020 og ég vil byrja nýja árið með sann­leikanum. Ég vil byrja árið með því að af­hjúpa loksins hluta af lífi mínu sem hefur mótað mig.“

Nikkie bar kaldar kveðjur til þeirra sem hótuðu að leka hennar sögu til fjölmiðla.
Mynd/YouTube

„Þegar ég var yngri fæddist ég í röngum líkama, sem þýðir að ég sé trans,“ segir Nikki­e og bætir við að það hræði hana að koma út sem trans en á sama tíma sé það frelsandi. „Í lok dagsins þá er ég bara ég. Í lok dagsins þá ert þú bara þú,“ segir hún.

Á­stæðan fyrir því að Nikki­e á­kvað að greina frá málinu var þó ekki að­eins til að vera frjáls. „Ég hef verið fjár­kúguð af fólki sem vildi leka minni sögu til fjöl­miðla,“ segir Nikki­e en hún nafn­greindi ekki hverjir það voru. „Þeir vildu leka sögunni því þeir héldu að ég væri að ljúga, eða að ég vildi ekki segja sann­leikann eða því þeir héldu að ég væri hrædd við að fólk vissi hver ég væri í raun.“

Á þeim fimm­tán klukku­tímum sem mynd­bandið hefur verið í loftinu hafa rúm­lega fimm­tán milljón manns horft á það en Nikki­e er sjálf með tólf milljón fylgj­endur á síðunni. Hún endar mynd­bandið með að þakka fjöl­skyldu sinni og vinum fyrir stuðninginn. „Mamma, ég held að það verði í lagi með okkur.“

Myndbandið hefur vakið mikla athygli og hefur fólk víðs vegar um heiminn sent kveðjur til hennar. „Áfram hún og áfram fjölbreytileikinn,“ skrifar meðal annars Hinseginleikinn á Facebook.