Í dag eru 42 ár síðan tónlistarmaðurinn og Bítillinn John Lennon var myrtur fyrir utan heimilið sitt í New York. Eiginkona hans, listakonan Yoko Ono deildi í dag fallegum orðum um sálufélaga sinn. Hún segir að Lennon hafi alltaf verið hann sjálfur, til síðasta dags.
„Á einhvern hátt var John mjög flókin manneskja, en á annan var hann manneskja sem hélt í sakleysið sitt,“ segir Yoko. Hún segir að Lennon hafi ávalt haldið fast í rætur sínar og til barnæsku sinnar í hafnarborginni Liverpool.

„Þegar við hittumst í fyrsta skipti, vissi ég ekkert hver hann var, en ég varð strax hrifin af honum. Hann var ekki þekktur sem myndarlegasti maður í heimi, en hann var heillandi og sjarmerandi,“ segir Yoko. Hún segir að John hafi átt auðvelt með að vera hann sjálfur.
Yoko segir að John hafi horft hlýlega til fortíðarinnar og uppeldisborgin hans, Liverpool var honum ótrúlega kær. Yoko segir að í síðustu viku John á lífi hafi hann ætlað þangað, til þess að sýna syni sínum Sean, borgina sem hann ólst upp í.
„Hann var alltaf að koma með áhugaverðar staðhæfingar, sérstaklega þegar endirinn nálgaðist. Það var eins og hann vissi að það væri eitthvað að fara gerast við hann. En ef þú hlustar á lagið hans Imagine, þá heyirðu allt það sem hann var að reyna segja við Sean. Hann var ávallt hann sjálfur, til síðasta dags,“ segir Yoko.