Stafrænar lausnir mættu manninum fyrst þegar IBM setti fyrstu einkatölvuna á markað 1981. Árin á eftir sáu mýmörg fyrirtæki markaðstækifæri í gegnum einkatölvuna. Árið 1986 varð fyrirtækið ACT fyrst til að hleypa af stokkunum sérstökum hugbúnaði sem markaðssetti gagnabanka og smám saman tók hreyfiafl kaupenda og seljenda að breytast. Allt auðveldaði það fyrirtækjum að safna upplýsingum um viðskiptavini og ná til þeirra sem aldrei fyrr.

Þróunin tók stökk á tíunda áratugnum. Netnotendur á heimsvísu mældust 16 milljónir árið 1995 og árið á eftir eyddu Bandaríkjamenn að meðaltali hálftíma á dag á netinu. Þremur árum seinna var leitarvélin Google stofnuð en hún er leiðandi í bestun stafrænna markaðsherferða og markaðssetningu sem byggir á leitarorðum.

Stafræn tækni gerir okkur kleift að sýna umheiminum líf okkar og upplifanir.

Eftir aldamótin 2000 fjölgaði notendum internetsins hratt og voru þeir orðnir 558 milljónir árið 2002. Árið 2007 kom fyrsti iPhone-síminn á markað og almenningur fékk aðgang að Google árið 2004. Þá kom í ljós ný kauphegðun neytenda sem leituðu sér upplýsinga um vöruna áður en þeir keyptu hana og þurftu markaðsöfl að mæta þeirri tilhneigingu með nýrri markaðstækni sem smám saman var þróuð til að komast til móts við persónulegar þarfir notenda.

Útbreiðsla samfélagsmiðla skapaði svo aftur vandamál fyrir markaðsaðila en það var leyst í gegnum mörg ný hugbúnaðarfyrirtæki sem bjuggu til tól sem auðvelduðu greiningu á leit í farsímum og á samfélagsmiðlum.

Sífellt fleiri finna ástina á netinu.

Neytendur nútímans reiða sig á stafrænar lausnir af öllu tagi og örskamma stund tekur að hlaða niður efni á netinu. Við lifum á tímum þar sem flest er hægt að gera með stafrænum lausnum og höfum vaxandi væntingar um að þær mæti þörfum okkar í hvívetna. Við sendum skilaboð og póst okkar á milli með stafrænum lausnum, förum í heimabankann og stundum öll okkar bankaviðskipti með stafrænum hætti, eigum í daglegum samskiptum við vini og kunningja í gegnum stafræna samfélagsmiðla og leitarvélar, verslum í matinn og finnum flest sem okkur vantar með stafrænum viðskiptaháttum, lesum bækur og leitum upplýsinga um allt á milli himins og jarðar, kynnumst ástinni, hlustum á tónlist og horfum á sjónvarp, kaupum hús og bíla, stundum líkamsrækt og nám á netinu, förum í stafræn ferðalög um heiminn, og fylgjumst með fréttum og fólki allan sólarhringinn allt árið um kring. Markaðsöflin þurfa bara að halda viðskiptavinum við efnið og víst er að framboðið eykst stöðugt og möguleikarnir eru endalausir.