Nú er sumarið að fara í gang og garðarnir að vakna með öllum þeim gjöfum sem því fylgir. En því miður geta ýmis vandamál líka fylgt því þegar lífríkið tekur við sér. Mosi á grasflötum, mygla, sveppir og meindýr geta skemmt fyrir útliti garðsins og ýmiss konar ræktun, en garðyrkjufræðingurinn Hafsteinn Hafliðason er með ýmis ráð við þessu.

Hafsteinn er margverðlaunaður fyrir ævistarf sitt sem garðyrkjumaður, en hann hefur fengist við óteljandi pistlaskrif, unnið að dagskrárgerð um garðyrkju og heldur úti Facebook-hópnum „Stofublóm inniblóm pottablóm“.

Enginn mosi á vel nýttri flöt

Mörg láta mosa í grasflötum angra sig, en Hafsteinn segir að hann geti ekki ógnað gróðri og sé eðlilegur þáttur lífríkisins.

„Það er hægt að vinna bug á honum með mosatætingu, en umfram allt þarf bara að hirða flötina vel. Það er gott að gefa áburð núna í kringum byrjun vaxtartímans. Það er passlegt að nota 3,5 kíló og svo um miðjan júní er gott að setja önnur 3,5 kíló og svo 2,5 kíló um miðjan júlí,“ segir hann. „Þá er ég að tala um Blákorn. Það er engin ástæða til að setja túnáburð á grasbletti því fólk er ekki að hugsa um að fá eins mikið gras og hægt er, heldur bara að grasflötin sé þétt og græn.

Besta ráðið til að koma í veg fyrir mosa í grasflötinni er að hugsa vel um flötina, passa að hún sé vel framræst og að nota hana. Ef fólk notar hana kemur ekki mosi en fólk sem notar hana ekki verður oft að sitja uppi með hann. En það er svo sem ekki alvarlegt vandamál, því mosinn er bara fallegur þegar hann er skoðaður nánar,“ segir Hafsteinn.

Sveppir almennt lítil ógn

Hafsteinn segir að sveppagróður geti ekki ógnað gróðri þegar þeir eru í moldinni en að það séu til sveppategundir sem geta farið illa með tré.

„Það er eðli sveppa að leggjast á rotnandi og dauðan jurtavef, en myglusveppir geta líka stundum lagst á rósir eða kartöflur. Reyniáta en dæmi um svepp sem getur farið illa með reynivið,“ segir hann. „Svartrótarsveppir sem eru í moldaryfirborði leggjast líka á ungar plöntur sem er verið að sá, yfirleitt vegna ljósleysis og mikils raka, en almennt séð er ekki mikil ógn af sveppum í görðum.

Sveppirnir sem eru mest áberandi um þessar mundir eru ryðsveppir sem sækja á birki, víði og alaskaösp, en þeir eru svo sérhæfðir að þeir leggjast bara á eina tegund og jafnvel bara einn einstakan klón og fara ekkert á annað,“ segir Hafsteinn. „Þeir þurfa oft millihýsil, svo þegar blöðin falla til jarðar á haustin, fara sveppagróin í vetrardvala og vakna svo að vori og þurfa að verða kynþroska á millihýsli áður en þeir fara á viðkomandi tegundir.

Asparryð var áberandi fyrir nokkrum árum en er að mestu horfið og þar var millihýsillinn lerki, þannig að það kom bara upp ef lerki var líka til staðar. Hreggstaðavíðir, sem var mjög vinsæl limgerðisplanta, hefur líka orðið fyrir barðinu á ryðsvepp sem virðist ekki hafa neinn millihýsil, svo sveppurinn kemur upp hvað sem er gert, þannig að það er eiginlega búið að taka hann úr ræktun,“ segir Hafsteinn. „Gljávíðir lenti líka í slæmri sýkingu fyrir nokkrum árum, en það er næstum alveg hætt núna.

Mygla og sveppir eru eiginlega sami hluturinn en mygla veldur yfirleitt ekki miklum skemmdum ef það er loftað vel um og ekki mjög mikil bleyta. Kartöflumygla og annað slíkt kemur upp ef það er kalt og blautt sumar en yfirleitt er það ekki vandamál,“ segir Hafsteinn. „En það eru engar forvarnir til nema hreinlæti og góð loftun.“

Meindýr geta skapað vandræði

„Það eru nokkuð mörg meindýr sem geta ógnað gróðri í görðum. Á næstu vikum, þegar tré eru að laufgast, verða það helst lirfur haustfetans. Hann verpir á haustin og fer út á nývöxt á flestum trjátegundum. Kvendýrin eru vængjalaus en karlarnir fljúga og það eru þessi gráu fiðrildi sem við sjáum í október og nóvember,“ útskýrir Hafsteinn. „Kvendýrin skríða upp eftir trjábolum og fara yfirleitt út í endann á nývextinum og verpa þar við ystu brumin, þar klekjast þessar lirfur svo út þegar trjágróðurinn laufgast, en það er ekki mikið hægt að gera við þeim.

Yfirleitt er þetta nú ekki stórkostlegt vandamál en ef það er eitt og eitt tré sýkt má úða það með mildu sápuvatni, það er oft nægilegt,“ segir Hafsteinn. „Það má líka setja cayenne-pipar út í vatnið og það er líka hægt að úða honum á trjágróður á haustin svo kerlingar verpi ekki á greinarnar. Þá verða þær ráðvilltar, því þær þola ekki lyktina og bragðið af piparnum.

Svo er asparglyttan orðin landlæg. Hún fer fyrst og fremst á ösp en getur líka farið á viðju og fleiri víðitegundir. Hún gerir engan stórkostlegan skaða, en trén líta svolítið illa út eftir hana. Það sama gildir um birkikembuna. Hún kemur á birkitrén í byrjun júní og staldrar við í nokkrar vikur. Þá verða trén brún. Birkiþéla kemur svo á haustin og gerir svipaða hluti,“ segir Hafsteinn. „En þetta aftrar trjánum ekki að neinu leyti nema kannski í gróðrarstöðvum, þar sem örsmáar plöntur í uppeldi geta lent í þessu.

Svo geta kanínur og sauðfé auðvitað líka valdið miklum skaða, þannig að ef fólk er á svæði þar sem þessi dýr ganga laus þarf að girða með viðeigandi girðingum,“ segir Hafsteinn.

Biblía um pottaplöntur komin út

„Mér finnst mikilvægt að lifa í garðinum sínum eins og hann leggur sig upp með. Svo er hægt að hjálpa honum eins og maður vill. En það er eitt að vera með þrifalega afgirta lóð með plöntum og annað að vera með þaulræktaðan garð,“ segir Hafsteinn. „Garður kostar miklu meiri vinnu en að halda hreinu í kringum húsið sitt.“

Þeir sem vilja græða meira á þekkingu og hálfrar aldar reynslu Hafsteins geta nú gert það með því að kaupa nýútgefna bók hans, sem heitir Allt í blóma – stofublómarækt við íslenskar aðstæður. Bókin er heilar 500 blaðsíður að lengd og sannkölluð biblía áhugafólks um pottaplöntur, en hún geymir allt sem blómaræktendur þurfa að vita. Bókin fæst í öllum helstu bókaverslunum og hana er einnig hægt að kaupa í vefverslun Sögur útgáfu.