Hjalti Úrsus Árna­son er nýjasti gesturinn í nýjasta Pod­cast­þætti Sölva Tryggva­sonar. Þar ræðir hann mál sonar síns Árna Gils sem lést í sumar 29 ára gamall. Hjalti vinnur í skaðabótamáli og segir kröfur sínar nema tugum milljóna. Hann hyggst fara með málið alla leið.

Sonur Hjalta, Árni Gils, lést í sumar að­eins 29 ára gamall. Hann var fyrir nokkrum árum dæmdur í fangelsi og sat nærri 300 daga í eina­grun, gæslu­varð­haldi og fanga­vist, þar til honum var sleppt eftir að í ljós komu gríðar­legar brota­lamir í málinu. Hann var svo sýknaður í Lands­rétti og nú er í gangi risa­stórt skaða­bóta­mál á hendur ís­lenska ríkinu.

„Þetta mál allt saman er með ó­líkindum og ég mun fara með það alla leið. Þegar ég skoða myndir af honum sem barni hugsa ég bara hvernig svona lagað getur gerst. Hann var á köflum í slæmum fé­lags­skap og neyslu, en ill­menni var hann ekki. Ég held að það hafi verið búið að dæma hann fyrir­fram....Hann var sakaður um að hafa stungið mann í höfuðið með stórum hníf. En nú er komið fram svo margt sem sýnir að þessi frá­sögn gengur ekki upp.

Það er til dæmis komið í ljós að það var ekkert blóð á vett­vangnum, hinn maðurinn hefur viður­kennt að hafa sjálfur mætt með hnífinn á vett­vang og hefur viður­kennt að hafa verið undir á­hrifum fíkni­efna. Sárið sem hann var með passar engan vegin við lýsinguna á því hvernig hann á að hafa verið stunginn. Nú hafa réttar­meina­fræðingar og fleiri stað­fest að þetta gat ekki hafa gerst á þann hátt sem lýst var. Það stendur ekki steinn yfir steini í þessu máli alveg frá upp­hafi…..

Það sem raun­veru­lega virðist hafa gert þetta kvöld er að maðurinn hafi ráðist að Árna með hnífnum og Árni hafi náð að af­vopna hann, enda stór og sterkur, og kastað svo vopninu í burtu og þar við situr. Maðurinn stökk í burtu og lét sig hverfa. Hann var ekki meira meiddur en það að hann stökk í burtu og fór af­síðis.

Kjarni málsins er að það er komið í ljós að það var ekki einn einasti blóð­dropi á svæðinu þar sem þeir voru að takast á. En síðan mætir maðurinn tals­vert síðar niður á spítala al­blóðugur með sár ofan á höfðinu. Hann hefur áður gerst sekur um að sækja pening úr bóta­sjóði og nú er komið í ljós að það stendur ekki steinn yfir steini í upp­haf­legu frá­sögninni,“ segir Hjalti og heldur á­fram.

„Í seinni réttar­höldunum gerist það í þrí- eða fjór­gang að vitni eru að breyta frá­sögnum sínum frá því sem þau sögðu fyrst. Læknarnir viður­kenndu að sárið hafi verið mjög skrýtið og að þeir hafi ekki séð svona sár miðað við frá­sögnina á því sem átti að hafa gerst.

Ef að maðurinn á að hafa fengið þetta sár eins og lýst er, þá er skrýtið að það vanti blóð­dropa á vett­vangi, hann hefði þurft að labba al­blóðugur fram­hja fjölda lög­reglu­manna til að finna ein­hvern til að keyra sig niður á spítala og svo fram­vegis og svo fram­vegis.“

Brotið á honum á svo marga vegu

Hjalti hefur barist fyrir því að hreinsa mann­orð sonar síns undan­farin ár og segir gríðar­lega margt í ó­lagi við ferlið allt saman.

„Það var brotið á honum á svo marga vegu. Það gleymdist til dæmis að ná í hann svo hann fengi að vera við­staddur réttar­höldin eftir að Hæsti­réttur hafði snúið dómi Héraðs­dóms og hann var í fangelsi allan tímann. Hann var allt í allt nærri 300 daga í fangelsi og ein­angrun út af þessu máli. Hann var yfir­heyrður allt að því nakinn, í ein­hverri sund­skýlu og sagði í yfir­heyrslunni að hann vildi komast í föt. Þá var honum bara sagt að þetta væri ekki tísku­sýning!

Við fórum svo með málið til eftir­lits­nefndar um störf lög­reglu, sem tók málið til um­fjöllunar, en það tók lík­lega um átta mánuði að fá svarið. Þar var sagt að hann hafi verið með hand­klæði yfir öxlina eins og það rétt­lætti þar með að hann hafi að öðru leyti verið hálf­nakinn í yfir­heyrslunni. Svo var í svarinu sagt að því miður hafi annars nær öll gögn málsins týnst, en það yrði reynt að bæta upp fyrir það.

Einh­verra hluta vegna er eins og allt í kringum þetta mál hafi týnst, sem á ekki að geta gerst. Ég er núna í skaða­bóta­máli við ríkið eftir með­ferðina á honum og við munum taka það alla leið. Ef að það koma veru­legar bætur, þá vil nota skaða­bæturnar til þess að stofna sjóð í nafni sonar míns, sem verður notaður til þess að hjálpa öðrum sem gætu lent í svipuðum sporum.“


,,Sleppið honum, sleppið honum!”

Hjalti lýsir í þættinum at­burðar­rásinni í kringum það þegar dómnum var snúið og sonur hans sýknaður.

„Ég náði að hringja í hann í fangelsið til að segja honum að hann væri frjáls og að það ætti að sleppa honum. Svo heyrði ég bara fólk kalla á bak­við hann úr fangelsinu: ,,Sleppið honum, sleppið honum!”. Ég hringdi svo strax í Brynju dóttur mína til að segja henni að hann væri frjáls og við værum að fara að sækja hann.

Hún var í skólanum og allur bekkurinn hennar fór bara að gráta. Svo kem ég að fangelsis­dyrunum að sækja hann, en þar var mér sagt að það væri ekki heim­sóknar­tími. Ég segi þeim að ég sé með dóminn og sýni þeim hann, en það tók lík­lega tvo klukku­tíma að fá hann lausan.

En svo förum við heim og ég ætlaði bara að grilla og fara svo í bíó, en þá áttaði ég mig á því hvað hann var tættur and­lega eftir þetta allt saman. Það að sleppa úr fangelsinu var bara fyrsta skrefið í að ná sér á strik. Maður fattar ekki hvað svona gríðar­legt inn­grip hefur mikil á­hrif á fólk.“

Erfiðast að skoða barnamyndirnar

Hjalti hefur undan­farna mánuði syrgt son sinn og segir það auð­vitað hafa verið erfitt.

„Það var farið að birta svo mikið til hjá honum áður en hann dó. Ég hafði ekki séð hann svona vel stemmdan í mjög langan tíma og þess vegna var þetta svo sárt. Ég man að vikuna áður en hann dó fórum við í Costco saman og þá sagðist hann vera kominn í Or­lando-fílinginn, þar sem honum leið alltaf best. Við fórum svo að skoða bíl saman og hann var út­skrifaður af Reykja­lundi og það var mikil birta yfir honum.

Erfiðast fyrir mig núna er að horfa á myndir af honum sem barni. Þá hugsa ég alltaf bara: „Hvernig gat þetta gerst?”. En lífið fer víst ekki alltaf eftir fór­múlunni sem að maður sá fyrir sér.“

Jón Páll með hugarfar sem hvorki hefur sést fyrr né síðar

Hann segir í þættinum frá tíma­bilinu þegar hann og Jón Páll æfðu eins og vit­leysingar fyrir keppnirnar um sterkasta mann heims.

„Stundum var hart í ári og þá var hvorki vatn né raf­magn í húsinu, en við æfðum þá bara í myrkrinu vatns­lausir. Það var allt lagt í sölurnar. Það sem við höfðum alltaf þegar kom að sam­keppninni við þá bestu úti í heimi var annars vegar hugar­farið og svo þessi hreini sveita­styrkur úr æsku. Þeir sem við kepptum við höðfu mun betra utan­um­hald og að­búnað, en þeir unnu okkur ekki í vilja­styrk.

Jón Páll var með aga og hugar­far sem hefur hvorki sést fyrr né síðar. Ég man til dæmis eftir því þegar ég fór í heim­sókn til hans í mat. Hann sauð ýsu og kar­töflur fyrir okkur, en sjálfur snerti hann hvorki ýsuna né kar­töflurnar. Þá var hann að undir­búa sig undir vaxtar­ræktina og meira að segja magur fiskurinn fór ekki inn fyrir varirnar. Hann drakk bara vatnið af ýsunni!,“ segir Hjalti og heldur á­fram.

„Þetta voru á köflum svaka­legar að­farir og þegar hann var að þyngja sig, þá borðaði hann ó­gur­lega. Eitt skiptið var hann búinn að þenja sig út og borða gríðar­lega og var hálf ó­vígur á eftir. Þá lagðist hann út á svala­hand­riðið þannig að höfðið leit aftur af svölunum.

En þá vill ekki betur til en að ælan stendur út úr honum og sjálfur full­yrti hann að hún hafi drifið heila sjö metra aftur af honum!…..Þetta var á köflum býsna frum­stætt hjá okkur, en það opnaðist alveg nýr heimur þegar við fórum í fyrstu ferðrnar til að keppa er­lendis.

Fyrsta ferðin mín er­lendis á afl­rauna­mót var til Mont­real. Við urðum bara frægir þarna strax í að­draganda mótsins og það var alltaf verið að láta okkur fá 50 dollara seðla, þó að allt væri borgað undir okkur. Þarna áttuðum við okkur á því að það væri annar heimur en bara Ís­land og að við gætum mögu­lega náð að lifa af sportinu.“

Gríðarlegt áhorf

Hjalti rifjar í þættinum upp eins konar drauma­tíma í afl­raununum á Ís­landi, þegar öll þjóðin fylgdist með:

„Þessi helstu mót voru sýnd á laugar­dags­kvöldum á RÚV og það gerðist að árs­há­tíðir voru stoppaðar svo fólk gæti horft og þetta var eitt allra vin­sælasta sjón­varps­efni landsins. Þetta var nánast á pari við Euro­vision og Hemma Gunn, það var gríðar­legt á­horf. Jón Páll kom inn í þessar stærstu keppnir eins og ferskur vindur.

Fyrir hans tíma höfðu menn bara verið að lyfta þungum hlutum þöglir og þungir, en hann mætti þarna ljós yfir­litum eins og skemmti­kraftur. Þegar hann byrjaði að pósa, kalla ,,I am the Viking” og vera alveg snar­brjálaður höfðu menn aldrei séð neitt í líkingu við það. Þetta voru það í­hald­samir tímar að Jón Páll var hárs­breidd frá því að vera klipptur út. Þeir sem stýrðu mótunum og út­sendingunum voru á því að þessi fram­koma væri alveg á mörkunum,“ segir Hjalti, sem náði sjálfur frá­bærum árangri í afl­raunum.

„Ég náði að vinna heims­meistara­mótið einu sinni og þá voru allir þeir öflugustu með. Ég setti þá heims­met í stuttri hné­beygju­lyftu 876 kíló. Þá er þetta í raun þyngd sem þú átt bara að ná frá jörðu með því að rétta úr búknum og öxlunum.

En þetta met stóð býsna lengi og þegar það var loksins fellt voru móts­haldararnir komnir í vand­ræði og styttu lyftuna. En ég ætla nú að gefa þeim sem sló metið að hann hefði náð því sem upp á vantaði. En það er rosa­legt álag á beina­grindina að ná að lyfta nærri 900 kíló­grömmum. Ég verð alltaf stoltur af þessum tíma og því sem við náðum að af­reka, sér­stak­lega Jón Páll og Magnús Ver.“