Helgi Þór rofnar er leikrit eftir Tyrfing Tyrfingsson sem frumsýnt verður í Borgarleikhúsinu á morgun, föstudaginn 17. janúar.

„Verkið fjallar um fúskara í útfararþjónustu í Kópavogi sem lenda í eins konar grískum harmleik,“ segir Tyrfingur. „Pabbinn fær sýnir og fer á miðilsfundi og í upphafi verksins telur hann að þrír hræðilegir hlutir séu að fara að gerast. Enginn trúir honum, en í framvindunni fylgjumst við með því hvort það sem hann telur yfirvofandi muni gerast og hvort úr verði harmleikur eða ekki.“

Spurður hvort hann sjálfur trúi á það yfirskilvitlega segir hann svo vera og bætir við: „Mér hefur oft verið stýrt í gegnum tíðina. Ég bý í Amsterdam og þegar ég kem til Íslands talar fólk hér miklu meira um galdur og það yfirskilvitlega en fólk gerir þar. Við erum mjög andleg þjóð.“

Tyrfingur segir verkið vera harmleik. „Það virkar þannig á áhorfendur. Ég hef setið rennsli og séð fólk eftir sýningu ganga út, eiginlega fegið að sjá martröðina rætast.“

Á ekkert val

Helgi Þór rofnar er fimmta verkið eftir Tyrfing sem frumsýnt er í Borgarleikhúsinu. Hann byrjaði kornungur að skrifa leikrit og hefur atvinnu af því. „Í tíu ár hef ég komist upp með allt í leikhúslífinu. Ég byrjaði, lítill og skrýtinn, hjá Magnúsi Geir Þórðarsyni í Borgarleikhúsinu. Hann tók mig fljótlega að sér og í kjölfarið fór ég fang Kristínar Eysteinsdóttur. Leikhúsbransinn hefur alltaf verið góður við mig. Ég hef líka fengið ritlaun frá launasjóði. Mér hefur ekki dottið neitt annað í hug en að sinna leikritaskrifum, þannig að þetta er eiginlega ekki val.“

Tyrfingur sem er 33 ára er spurður hvað hann hafi lært á langri vegferð sinni í leikhússkrifum. „Ég var reiður ungur maður þegar ég var 23 ára og fannst ég þurfa að predika yfir áhorfendum og segja þeim hvernig hlutirnir væru. Svo sat ég í áhorfendasalnum og sá fólk sitja undir þessari messu og klappa kurteislega. Þá rann upp fyrir mér að þetta fólk hefði kannski gott af mildi og upplyftingu. Ekki þannig að ég sé að hugga áhorfendur heldur sýna þeim inn í þeirra eigin hugarheim. Það sem hefur gerst í kjölfarið er að fólk gefur sig á tal við mig og segir mér sögur. Ég vinn úr þeim og skila í verkin.“

Kartöfluæturnar í útrás

Spurður hvort honum finnist það vera hlutverk sitt að takast á við samtímann í verkum sínum segir hann: „Ég held að ég komist ekki undan því. Ég er afsprengi samtímans. Ég hef ást á leikhúsinu og svo ratar samtíminn inn í verkin þannig að ég þarf ekki að rembast við að koma honum þangað.

Ég skrifa og þegar því er lokið vil ég horfa. Í dag lít ég ekki endilega á mig sem höfund heldur sem áhorfanda sem á það til að skrifa leikrit. Ég yfirgef aldrei áhorfendur.“

Í febrúar fer Tyrfingur til Póllands þar sem leikrit hans Kartöfluæturnar verður leiklesið í Varsjá og sama leikrit fer á svið í Amsterdam næsta vetur.