William Bretaprins er sagður hafa áhyggjur af kærum bróður sínum eftir að Harry opnaði sig um geðheilsu sína í heimildarmynd fyrir ITV. Ýjaði Harry að því í myndinni að bræðurnir ættu í einhvers konar útistöðum. Þeir væru á ólíkri vegferð og að það kæmu góðir dagar en líka slæmir dagar í sambandinu við bróður sinn William.

Heimildamaður frá konungshöllinni segir samkvæmt frétt BBC að ástandið á hertogahjónunum af Sussex, þeim Harry og Meghan, „sé viðkvæmt“. Í umræddri heimildarmynd er hjónunum fylgt eftir á ferðalögum þeirra um Suður-Afríku og segja þau bæði að þau eigi erfitt með hina miklu umfjöllun slúðurblaðanna um líf þeirra.