Íslenski tónlistarmaðurinn Aron Can kom öllum á óvart þegar hann steig á svið ásamt stórhljómsveitinni Black Eyed Peas. Fréttablaðið heyrði í Aroni en að hans sögn var þetta algjörlega fyrirvaralaust og vissi enginn að hann myndi koma fram. Forsprakki hljómsveitarinnar, will.i.am, bað Aron um að koma fram með þeim daginn áður.

Black Eyed Peas á Secret Solstice í gærkvöldi.
Getty images

Hittust á Prikinu

„Ég hitti þá á Prikinu daginn fyrir tónleikana og við byrjuðum að spjalla. Ég spurði hvenær þeir væru að fara á svið og minntist á að ég væri ekki að spila í ár vegna peningamála frá því í fyrra. Þá sagði hann [will.i.am.]: Þú kemur upp á svið með okkur á morgun. Og ég bara: Ha? Já, ókei, til í það! Svo stimplaði hann númeri sínu í símann minn og heyrði í mér í gær,“ segir Aron í samtali við Fréttablaðið.

Hafði ekki heyrt tónlistina hans

Þá var will.i.am. bent á að Aron væri tónlistarmaður þegar þeir hittust á Prikinu en að sögn Arons hafði hann ekki heyrt tónlistina hans þegar hann bað hann um að spila með þeim. Þegar þeir ræddu fyrir tónleikana hafði hann þó kynnt sér lögin hans Arons.

„Við spjölluðum aðeins um hvaða lag ég ætti að taka og enduðum á því að velja Fullir Vasar. Svo mætti ég á svæðið, hann hleypti mér baksviðs og þetta gerðist. Það var frekar sturlað,“ segir Aron.

„Þeir eru mjög almennilegur og ósköp venjulegir gaurar,“ bætir Aron við og segir tónlistarmennina vera algjörlega lausa við stjörnustæla.

„Manni leið ekki eins og maður væri að tala við einhvern heimsfrægan. Þeir voru allir virkilega almennilegir.“