Í gær var greint frá því að banda­ríski leik­ar­inn Will Smith væri stadd­ur á Íslandi við tök­ur á verkefni sem hann er með í smíðum. Hinn heimsfrægi leikari þarf að lúta sóttvarnarlögum eins og aðrir en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur hann það náðugt á lúxushótelinu Deplum Farm..

Hótelið er í eigu bandaríska fyrirtækisins Eleven Experience. Það er staðsett í Stífludal í Fljótum í Skagafirði og liggur við rætur Breiðarfjalls og Ólafsfjarðarfjalls. Þrettán lúxusherbergi eru á hótelinu sem er 2.600 fermetrar að stærð. Nóttin kostar að lágmarki rúmlega 200 þúsund krónur og því er það ekki fyrir hvern sem er að gista þar.

Fjölmargir heimsfrægir einstaklingar hafa gist á hótelinu og má meðal annars nefna Tom Cruise, Lance Armstrong og Jürgen Klopp.

RÚV greindi fyrst frá veru leikarans á landinu og þar kom fram að framleiðslufyrirtækið True North sé sagt vera leikaranum innan handar á meðan dvöl hans stendur.

Deplar.jpg

Deplar Farm er leikvöllur hinna ríku og frægu

Óvitað er hvaða verkefni Smith er nú með í smíðum en hann hef­ur á síðustu árum staðið að þáttaröðunum Will Smit­h's Bucket List og Will Smith: Off the Deep End. Samkvæmt IMDB eru næstu kvikmyndaverkefni hans King Richard, sem fjallar um uppgang Williams-systranna í tennis, Bad Boys 4 og Bright 2.

Í sumar var hjónaband Will Smith og eiginkonu hans Jada Pinkett-Smith milli tannanna á fólki eftir að Jada viðurkenndi ástarsamband sitt við ungan tónlistarmann, August Alsina og að Will hefði „lagt blessun sína“ yfir sambandið. Will og Jada hafa verið gift í um tvo áratugi og eiga tvö börn saman.