Leik­konan Shell­ey Morri­son er látin, 83 ára að aldri. Hún var þekktust fyrir hlut­verk sitt í sjón­varps­þátta­röðinni vin­sælu Will & Grace, þar sem hún lék þernuna Rosario Salazar. Morri­son lést á heimili sínu í gær. Dánar­or­sökin er talin hafa verið hjarta­bilun, að því er greint er frá í er­lendum fjöl­miðlum.

Morri­son var fædd og upp­alin í New York í Banda­ríkjunum. Hún lék í 68 þáttum Will & Grace á árunum 1999 til 2006, þar sem hún fór með hlut­verk Rosario, ó­lög­legs inn­flytjanda frá El Salvador. Hún átti hins vegar upp­haf­lega að­eins að koma fram í einum þætti en varð svo vin­sæl meðal á­horf­enda að hún fékk fast­ráðningu nær sam­stundis.

Debra Messing, sem lék Grace, birti færslu á Twitter-síðu sinni í morgun þar sem hún vottar að­stand­endum sam­úð sína.

„Oh, Shell­ey... því­líkur missir,“ skrifar Messing. „Okkar kæra Rosario er fallin frá. Shell­ey á að baki feril sem spannaði ára­tugi, en hún verður alltaf okkar kæra Rosi­e,“ segir hún fremur.