„Það er skemmtilegt að verið sé að fylgjast með þessu en stutta svarið er að það eru engar nýjar fréttir af þessu,“ segir Gunnar B. Sigurgeirsson, aðstoðarforstjóri Ölgerðarinnar, þegar hann er spurður hvort eitthvað sé að frétta af PopCorners White Cheddar og hvort ákafir aðdáendur snakksins á Íslandi geti farið að gera sér vonir um að fá það aftur.

Ölgerðin er með umboðið fyrir PopCorn­ers á Íslandi, rétt eins og gosdrykkinn sem framleiðandinn kennir sig við, og því miður er enn ekkert nýtt að frétta frá höfuðstöðvunum í Bandaríkjunum.

Fréttablaðið greindi frá því í október á síðasta ári að mörg sem væru fíkin í Popcorners-snakkið með bragði sem kennt er við „white cheddar“ væru með böggum hildar eftir að naslið hvarf úr hillum verslana.

„Þetta hvarf fyrir einum og hálfum mánuði síðan og ég hef ekki fengið mér snakk síðan,“ hafði blaðið þá eftir ónefndum Popcorn­ers-fíkli og Gunnar upplýsti að skortinn mætti rekja til þess að Pepsico hafi ákveðið að taka tvær tegundir PopCorners, White Cheddar og Spicy Queso, af markaði þangað til búið væri að tryggja að innihald þeirra væri í samræmi við matvælareglugerð Evrópu.

„Pepsico, eigandi vörumerkisins, hefur ekki gefið neitt út varðandi endurkomu PopCorners White Cheddar. En sjáum hvað setur,“ segir Gunnar en þar sem árið er rétt hálfnað kann enn að vera von um að úr rætist og ekki útilokað að hægt verði að kveðja 2022 með White Cheddar í áramóta­partíunum.