„Þetta hvarf fyrir einum og hálfum mánuði síðan og ég hef ekki fengið mér snakk síðan,“ segir viðmælandi Fréttablaðsins sem telur víst að hann sé harðasti aðdáandi White Cheddar snakksins frá Popcorners og er síður en svo sá eini sem saknar naslsins sem hefur reynst ófáanlegt um skeið.

Snakkskortinn má rekja til þess að framleiðandinn, Pepsico, ákvað að taka tvær tegundir Popcorners, White Cheddar og Spicy Queso, af Evrópumarkaði þangað til þær hafa verið lagaðar að Evrópureglum.

„Pepsico ákvað að taka þessar tvær tegundir, White Cheddar og Spicy Queso, af markaði þangað til að tryggt er að innihald þeirra sé í samræmi við matvælareglugerð Evrópu,“ segir Gunnar B. Sigurgeirsson, aðstoðarforstjóri Ölgerðarinnar, sem er með umboðið fyrir Popcorners rétt eins og gosdrykkinn Pepsi sem framleiðandinn dregur nafn sitt af og er langþekktastur fyrir

„Þetta er hluti af ferli Pepsico þegar vörur af Bandaríkjamarkaði eru seldar í Evrópu. Við erum vongóð um að geta boðið upp á þessar tegundir síðar en það verður þó líklega ekki fyrr en á næsta ári.

Salan milli tegunda virðist vera nokkuð jöfn en Sea Salt, Sweet and Salty og White Cheddar hafa verið mjög vinsælar samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum. Sweet Chilli er líka vaxandi,“ segir Gunnar.

Snakkið horfna.
Þessi var ekki alveg jafn vinsæll og White Cheddar.