Kvikmyndir

The French Dispatch

Framleiðendur: Wes Anderson, Jeremy Dawson, Steven Rales

Leikstjóri: Wes Anderson

Aðalhlutverk: Benicio del Toro, Adrien Brody, Tilda Swinton, Léa Seydoux o.fl.

Fingraför fárra leikstjóra eru eins auðþekkjanleg og fingraför leikstjórans Wes Anderson. Nýjasta mynd hans The French Dispatch er þar engin undantekning. Stjörnum hlaðin myndin er ástaróður til blaðamanna og bregður heimsfrægum leikurum fyrir í nánast hverri einustu senu.

Hér bregður Anderson á leik og segir þrjár örsögur í einni kvikmynd, sem allar tengjast tímaritinu French Dispatch, sem byggt er á hinu annálaða bandaríska tímariti New Yorker. Sögurnar eru missterkar en halda manni að mestu við efnið. Setja má spurningarmerki við hversu vel tekst að flétta þær saman í heildrænan söguþráð.

Kvikmyndataka og sviðssetning hafa líklega aldrei verið betri hjá okkar manni Anderson, sem hér leikur sér að frumlegri kvikmyndatöku í bland við sína gamalkunnu miðjusetningu myndavélarinnar.

Leikararnir eru hins vegar það besta við myndina, enda stýrir Anderson hér einhvers konar heimsmeistaraliði stórleikara, þar sem þau Benicio Del Toro, Adrien Brody og Léa Sedoux fara, að mínu mati, fremst í flokki og algjörlega á kostum í hlutverkum sínum í örsögunni af ótrúlegum listamanni í fangelsi. Jeffrey Wright gerir sömuleiðis gott mót.

Timothée Chalamet og Frances McDormand standa fyrir sínu í sinni sögu, sem og Bill Murray og Owen Wilson. Einhverjum kann þó að þykja Anderson nota þá, auk Willem Dafoe og Edward Norton, glæpsamlega lítið.

Niðurstaða: Mynd sem mun heilla eldheita kvikmyndaunnendur á meðan almennum áhorfendum gæti leiðst á köflum. Wes Anderson stendur þó, þegar upp er staðið, fyllilega fyrir sínu.

Adrien Brody er í frermstu víglínu í einum leikhluta French Dispatch og er hér í félagsskap ekki ómerkari leikara en Tilda Swinton og Bob Balaban.