Einn af orkum Hringadróttinssögunnar var innblásinn af raðnauðgaranum og kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein.

Þetta sagði Elijah Wood sem lék hringberann Fróða í kvikmyndum Peter Jackson, í nýjum hlaðvarpsþætti Dax Shepard.

„Ég man ótrúlega vel eftir því að hafa séð grímurnar fyrir orkana og ein þeirra leit út eins og Harvey Weinstein, það var þeirra leið til að gefa honum puttann,“ sagði leikarinn og bætti við:

„Ég held að það sé allt í lagi að tala um það núna. Maðurinn hefur verið dæmdur og hann má fara til fjandans.“

Elijah Wood í sófanum hjá Dax Shephard

Weinstein var í fyrra dæmdur í 23 ára fangelsi fyrir að hafa neytt aðstoðarkonuna Miriam Haley til munnmaka og að nauðga annari konu, en nafn hennar hefur ekki verið getið. Alls voru sex konur sem báru vitni í réttarhöldunum gegn Weinstein en frá árinu 2017 hafa meira en 80 konur stigið fram og sakað fram­leiðandann um ýmis kyn­ferðis­brot.

Elijah Wood greindi frá því að Peter Jackson hafi átt erfitt með að vinna með Weinstein sem var aðalframleiðandi þríleiksins. Weinstein hafi meðal annars reynt að smætta bækurnar niður í eina mynd og hótað að skipta Jackson út fyrir Quentin Tarantino eða John Madden.

Hægt er að hlusta á spjallið við Elijah Wood í heild sinni hér fyrir neðan.