Kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein, sem dæmdur var í 23 ára fangelsi í fyrra, er sagður hafa tekið bíómyndina Good Will Hunting úr sýningu kvikmyndahúsa á sínum tíma til að koma í veg fyrir að aðalleikari myndarinnar, Robin Williams heitinn, fengi bónusgreiðslur.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í bók leikarans, handritshöfundarins og leikstjórans Kevins Smith. Good Will Hunting var frumsýnd árið 1997 og átti góðu gengi að fagna. Myndin fékk tvenn Óskarsverðlaun og er að margra mati ein besta kvikmynd tíunda áratugarins.

Hún var ekki ýkja dýr í framleiðslu en gekk lengi fyrir fullu húsi í kvikmyndasölum vestanhafs.

Í bók sinni, Kevin Smith‘s Secret Stash, segir Smith að Williams hafi verið með samning þess efnis að ef myndin myndi þéna hundrað milljónir dollara eða meira í kvikmyndahúsum fengi hann meira í sinn hlut.

Hann rifjar upp í viðtali við Daily Beast að það hafi komið honum á óvart þegar ákveðið var að taka myndina úr sýningum í kvikmyndahúsum. Segir Smith að svo virðist sem græðgi hjá Miramax, þar sem Harvey Weinstein réði öllu, hafi ráðið för en þetta gerði það að verkum að Miramax fékk meira í sinn hlut en Williams minna.