Heimsmeistarakeppnin hefst í Rússlandi næstkomandi fimmtudag en í hugum Íslendinga verður ekki blásið til leiks fyrr en laugardaginn 16. mai þegar Íslendingar mæta Argentínu í Moskvu. 

Spennan fyrir keppninni hefur aldrei verið meiri hér á landi enda eru Íslendingar að keppa í fyrsta skipti á þessu stórmóti. Á meðan við bíðum eftir laugardeginum er tilvalið að rifja upp skemmtilegustu HM lögin og stíga við þau trylltan dans til að losa mestu spennuna. Áfram Ísland. 

Heimsmeistarakeppnin 1998 var haldin í Frakklandi og það var konungur latíntónlistarinnar, Ricky Martin sem átti lag keppninnar það árið, The Cup Of Life, sem er enn vinsælt dansslag. Ricky sló latíntóninn með lagi sínu og hafa þau lög sem eftir komu elt þann stíl, fjörug og dansvæn. 

Árið 2010 fór keppnin fram í Suður - Afríku og muna margir eftir wuwuzela lúðrunum sem áhorfendur blésu ákaft í á meðan keppninni stóð. Þeir eru ekki lengur leyfðir á knattspyrnuvöllum mörgum til mikils léttis. Lag Shakiru Waka Waka var opinbert lag keppninnar það ár og varð feykivinsælt um heim allan og dansinn við lagið var dansaður jafnt á elliheimilum og leikskólum í öllum heimsálfum. 

Danslagakóngurinn Pitbull er sérfræðingur í að setja saman taktföst límheilalög likt og HM lagið We Are One sem var opinbert lag keppninnar árið 2014.  Það ár fór keppnin fram í Brasilíu og ber lagið sterkan keim af því, fjörugur sambatakturinn í bland við teknótakt og latín tónlist gefur laginu alþjóðlegan blæ, enda sló það í gegn. 

Söngdívurnar Jennifer Lopez og Claudia Leitte stigu trylltan dans á meðan þær sungu lagið ásamt Pitbull líkt og sjá má í meðfylgjandi myndbandi. 

Lag ársins er, Live It Up, er fjörugur danssmellur sem án efa á eftir að lifa lengi á skemmtistöðum og í Zumbatímum löngu eftir að keppni lýkur. 

Í laginu bregður gamla brýnið, Will Smith, sér aftur í gervi rapparns The Fresh Prince en honum til halds og trausts er reggatone meistarinn Nicky Jam og söngkonan Eva Istrefi. Lagið hefur fengið mikla spilun á útvarpsstöðvum víða um heim og mun eflaust verða með vinsælli HM lögum.