Píanótónleikar

Verk eftir Beethoven og Wagner (í útsetningum Liszts)

Flutningur: Albert Mamriev

Salurinn í Kópavogi

Sunnudagur 5. júní

Nýlega þurfti ísraelsk útvarpsstöð að biðjast afsökunar á að hafa útvarpað verki eftir Wagner. Tónskáldið var Gyðingahatari og skrifaði einu sinni bækling með titlinum „Gyðingdómur í tónlist“ þar sem hann sagði að „Gyðingurinn væri ófær um listræna tjáningu.“ Hitler var enda mjög hrifinn af Wagner.

Engu að síður er tónlist Wagners upphafin snilld, því er ekki að neita. Og píanóleikarinn Albert Mamriev, sem er ísraelskur ríkisborgari, er alveg óviðkvæmur fyrir arfleifð Wagners. Hann hefur flutt útsetningar Liszts á tónlist meistarans oft í gegnum árin. Á sunnudaginn var komið að því að spila á Íslandi, nánar tiltekið á tónleikum í Salnum í Kópavogi. Þar flutti hann fimm af þessum verkum.

Rústaði nánast flyglinum

Wagner er þekktur fyrir átakamikla tónlist og Mamriev tók hana engum vettlingatökum. Í lok tónleikanna, þegar ég var að ganga út úr salnum, heyrði ég einn tónleikagest segja: „Gott að hann hætti áður en hann rústaði flyglinum.“

Það lék líka allt á reiðiskjálfi. Sérstaklega gekk mikið á í Santo Spirito Cavaliere úr óperunni Rienzi. Annað var þó lágstemmdara, til dæmis var Feierlicher Marsch úr hinni töfrakenndu óperu Parsifal sérlega eggjandi, síendurteknar, áleitnar hendingar voru magnaðar og heildarmyndin hástemmd, dulúðug og flott.

Hvorki fugl né fiskur

En Wagner samdi þessa tónlist fyrir heila hljómsveit, ekki lítinn flygil. Útsetningar Liszts, þó að þær séu áheyrilegar, eru hvorki fugl né fiskur við hliðina á upphaflegu útgáfunum. Hvergi var það eins pínlega áberandi og í Isoldes Liebestod úr Tristan og Isolde. Útsetning Liszts var glæsileg í sjálfri sér, en bliknaði við hliðina á hljómsveitargerðinni. Píanóútgáfan var svona eins og maður myndi verja allri brúðkaupsnóttinni í að segja konunni sinni brandara.

Tilgerðarlegur Beethoven

Á dagskránni voru líka tvær sónötur eftir Beethoven, op. 109 og 110. Þær voru óttalega tilgerðarlegar í túlkun Mamrievs, sérstaklega sú fyrri. Hún er mjög innhverf, líka þegar mikið gengur á. Beethoven var orðinn heyrnarlaus þegar hér var komið sögu og í tónlistinni má greina uppgjör og sátt. Þar er þó fyrst og fremst stemning sem ekki verður lýst með orðum. Hún skilaði sér ekki í leik Mamrievs. Þvert á móti voru velflestar hendingar og laglínur þvingaðar og yfirborðslegar, þær áttu greinilega að hljóma mjög djúpar og innblásnar, en voru það ekki. Allt flæði vantaði í skáldskapinn, það gerðist fátt ef nokkuð í tónlistinni.

Sónatan op. 110 var betri, hún var meira blátt áfram í leik Mamrievs, og því kom margt vel út, eins og fúgan og hraði kaflinn. En friðurinn sem á að ríkja í fyrsta kaflanum var ekki fyrir hendi, og hægi kaflinn eftir fúguna var kreistur, ýktur og rembingslegur, án nokkurs innihalds. Því miður.

Niðurstaða: Wagner var yfirleitt góður í takmörkuðum útsetningum, en Beethoven olli vonbrigðum.