Billie Eilish hlýtur eiginlega að vera nýliði ársins í poppheiminum. Hún gaf út fyrstu breiðskífuna sína í mars og síðan þá hefur hún skotist upp á stjörnuhimininn á ógnarhraða og er strax orðin ein frægasta poppstjarna heims.

Hún hefur ekki bara vakið athygli með tónlist sinni, heldur líka með heillandi persónuleika og sérstökum fatastíl. Þessi stíll hefur að sjálfsögðu áhrif og margir aðdáendur vilja klæða sig eins og hún. Í vikunni varð mun auðveldara að sýna aðdáun sína á Eilish með fatavalinu því Eilish var að setja á markað varning sem er merktur henni í samstarfi við tískumerkið Urban Outfitters.

Í Eilish-stílnum

Varningurinn er kominn í sölu á vef Urban Outfitters og alls eru sextán flíkur í boði. Það fer ekkert á milli mála að þær eru svo sannarlega allar í Eilish-stílnum. Það er boðið upp stuttermaboli, húfur, hatta, grímur, hettupeysur, stuttbuxur, lambhúshettu og síðerma peysur og boli og allar flíkurnar eru merktar Billie Eilish á skrautlegan hátt.

Peysurnar og bolirnir eru frekar hefðbundin, en það er óalgengt að hattar, andlitsgrímur og lambhúshettur séu seld sem varningur tónlistarmanna.

Litirnir eru líka í Eilish-stílnum og fötin fást í hvítum, svörtum, gráum, ljósbrúnum og neon litum. Merkingarnar eru í ýmsum blæbrigðum, en Eilish er sjálf dugleg að klæðast fötum með alls kyns skrautlegum merkingum.

Vann með Calvin Klein

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Eilish starfar með tískumerki. Í maí á þessu ári vann hún með Calvin Klein og í júlí var hún andlit haustlínu lúxusvörumerkisins MCM.

Annars er það að frétta af Eilish að í þessari viku kemur út nýtt lag frá henni, sem nefnist Everything I Wanted.

Meðal þess sem er í boði eru síðerma bolir og peysur. MYND/URBAN­OUTFITTERS.COM
Línan inniheldur líka þessar buxur sem líta út fyrir að vera mjúkar og þægilegar.
Þessar neongrænu stuttbuxur eru svo sannarlega í Eilish-stílnum.
Það eru ekki margir tónlistarmenn sem selja sínar eigin lambúshettur og grímur. MYND/URBANOUTFITTERS.COM
Flíkurnar eru merktar Eilish á skrautlegan og fjölbreyttan hátt.