Ég fékk símtal klukkan hálf níu að kvöldi og var mætt í starfsviðtal tólf klukkustundum síðar við hús Slysavarnafélagsins á Reykjanesi. Ég stökk um borð og tveir úr áhöfninni gripu mig svo ég dytti ekki á milli skips og bryggju.“ Þórdís hafði pakkað til klukkan þrjú um nóttina en skildi farangurinn eftir heima því hún vissi ekki hvort skipstjóranum myndi lítast á sig. „Ég heilsaði skipstjóranum sem var vingjarnlegur og sagði mér að skjótast heim og ná í farangurinn. Svo var lagt úr höfn um hádegið,“ segir Þórdís.

Hæstráðandi um borð

Þórdís hafði litla sem enga reynslu af sjóferðum og var mætt til starfa í níu daga sjóferð. „Inga Fanney, sem nú er stýrimaður á Fossunum hjá Eimskip, var um borð. Það kom mér á óvart að ég færi með eitt af æðstu embættunum á skipinu, sem eru skipstjóri, vélstjóri og kokkur, og fá þeir betri káetur en hinir sem sofa neðan þilja. Ég held að við séum ekki margar konurnar sem höfum farið á rannsóknarskip sem sjókokkar. Áhöfnin fær staðgóðan morgunverð og tvær heitar máltíðir á dag og svo eru þrír til fjórir kaffitímar. Unnið var frá klukkan 7 að morgni og oftast til 22. Það er nokkuð strembið að vera kokkur á sjó þegar veðrið er vont, en aftur á móti er fátt meira heillandi en að vera úti á rúmsjó þegar veðrið er gott og sólin skín. Það er ekkert sem toppar það.“

Ævintýrið um borð í rannsóknarskipinu sat í Þórdísi í ellefu ár.

Trúlega bara byrjunin

„Ég hef málað töluvert í tíu ár, haldið bæði einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Eftir að ég fékk krabbamein og fór í lyfjameðferð 2017 hef ég málað minna, en skrifað töluvert. Ég á fremur auðvelt með að skrifa og setja hugmyndir á blað og hef gert töluvert af því í námi og störfum. Ég hef þó aldrei gefið neitt út áður.“

Ævintýrið um borð í rannsóknarskipinu sat í Þórdísi í ellefu ár. „Ég skrifaði ekkert meðan á ferðinni stóð enda gafst ekki tími til þess. Síðar fann ég að ég varð að vinna úr þessari reynslu. Bara við að sjá ljóðin á prenti svo löngu seinna finn ég frelsistilfinningu.“ Ljóðaheftið Stílbrot á sjó gaf Þórdís út á afmælisdegi sínum, þriðjudaginn 16. júní. „Þetta er trúlega bara byrjunin á því sem koma skal. Ég á nokkuð af skrifuðu efni og það er aldrei að vita nema ég gefi meira af því út. Ætli það sé nú samt ekki betra að bíða eftir viðbrögðunum fyrst.“ Birtist hér eitt ljóð úr bókinni.

Upplifun

Á sjónum lífið

litríkt er

það finnst mér

ýmist uppi á dekki

sumar sól og sæla

inn á milli rok

bræla og æla

Það er

mikið ok

er úti geysar fok

Tileinkar Leifi Hannessyni bókina

Þórdís er menntuð á viðskiptasviðinu en lærði matsveininn ári eftir sjóferðina. Þá er hún með leiðsögunám að baki frá Ferðamálaskóla Íslands. Fimmtán ára starfaði Þórdís sem handlangari hjá smiðum og sextán ára vann hún í fyrsta bakkamötuneyti landsins, Matstofu Miðfells. „Það tíðkaðist fyrr á árum að fólk héldi sig við eitt svið og var það jafnvel talinn galli ef spriklað var á milli starfa. Minn starfsferill má teljast fjölbreyttur en það er líklega vegna þess að foreldrar mínir leyfðu okkur systrunum þremur að fljúga, í þeirri merkingu að þau höfðu alltaf trú á okkur. Ég var alin upp í bjartsýni og veit það fyrir víst að konur geta það sem þær vilja. Ég er afar þakklát fyrir litríkt uppeldi og ekki síst föður mínum sem skapaði mér skemmtileg tækifæri og því tileinka ég honum bókina.“