Edda Halldórsdóttir, verkefnastjóri skráninga hjá Listasafni Reykjavíkur, og Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar og rannsókna listasafnsins, leiða gesti um útilistaverk í Perlufestinni á Kvenréttindadaginn.

Höggmyndagarðurinn Perlufesti, sem er staðsettur á suðvesturhorni Hljómskálagarðs, var opnaður þann 19. júní 2014 þegar 99 ár voru liðin frá því að íslenskar konur yfir fertugu fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Garðurinn er til minningar um upphafskonur íslenskrar höggmyndalistar, þær Gunnfríði Jónsdóttur, Nínu Sæmundsson, Tove Ólafsson, Þorbjörgu Pálsdóttur, Ólöfu Pálsdóttur og Gerði Helgadóttur prýða garðinn.

Nýtt verk eftir myndlistarkonuna Rögnu Róbertsdóttur verður einnig sýnt í göngunni en það samblandast göngustígnum við Perlufestina.

Landnámskonan eftir Gunnfríði Jónsdóttur, skúlptúr frá árinu 1955 sem stendur í Perlufestinni í Hljómskálagarðinum.
Mynd: Listasafn Reykjavíkur

Edda segir þessar konur eiga það sameiginlegt að hafa unnið á tímum þegar lítill skilningur var á að þær legðu fyrir sig listsköpun.

„Konur fengust líka við höggmyndagerð þótt það hafi ekki verið jafn viðtekið og þegar karlar voru að fást við það. Í raun var litið hornauga á þær og það var alls ekki auðvelt að koma fram með þær kenndir að þú vildir verða myndhöggvari sem kona á þessum tíma,“ segir Edda.

„Að stunda myndlist og höggmyndagerð, sem krafðist líkamlegra krafta, var ekki talið eðlilegt að fyrir konur á sínum tíma. Gunnfríður Jónsdóttir, sem var fædd 1889, var 41 árs þegar hún vann sitt fyrsta verk en hún vann fyrir sér sem saumakona í mörg ár. Hún sagði í viðtali árið 1960 að hún hafi alltaf viljað verið myndhöggvari en það hefði verið talið einkennilegt.“

Vísar Edda í viðtal Vikunnar við Gunnfríði um líf hennar og feril. Spurði blaðamaðurinn Gunnfríði hvort hún hefði alltaf haft áhuga á höggmyndalist. Svaraði þá Gunnfríður: „Satt að segja hafði mig alltaf langað til að teikna eða eitthvað í þá áttina og það sérstaklega eftir að ég kom í Kvennaskólann á Blönduósi. En ég hefði verið talin einkennileg, ef ég hefði verið að segja frá því og einkum þar sem ég var kvenmaður.“

Áhugasamir geta skráð sig í gönguna á vef listasafns Reykjavíkur. Gangan hefst klukkan 13:00 á laugardeginum í Hljómskálagarði.