Ferskju-og appelsínutónar á augu

Nú hafa kaldir litatónar í augnskuggum verið úti í kuldanum síðustu árin, svo miklum kulda að jafnvel upprunalega Naked-augnskuggapallettan frá Urban Decay hættir í framleiðslu. Það er engum blöðum um það að fletta að heitir augnskuggar eru einmitt það-sjóðheitir. Í vor verða ferskjulitir og appelsínutónar áberandi og þá jafnvel á augum og vörum á sama tíma.  

Rauðar varir

Rauðar varir eru ekki beint byltingakenndar og eru vinsælar á hvaða árstíma sem er. En ef þig vantar innblástur þá kemur þú ekki að tómum kofanum.

Blautur kinnalitur

Blautir kinnalitir gera heilmikið fyrir heildarútlitið. Þeir eru sérstaklega vinsælir á vorin og sumrin, vegna þess hversu náttúrulegir þeir eru og blandast vel inn í húðina. 

Jógahúð

Nú vilja tískuspekúlantar hvíla áberandi highlightera og gefa húðinni náttúrulegri ljóma, líkt og þú hafir verið að koma úr jógatíma. Við mælum með því að þú leitir í rakagefandi serum eða farðagrunna með ljómaögnum í, sem grunna húðina einstaklega fallega.  

Glossí

Glossí er lýsingarorð sem var gjarnan notað fyrir húð fyrirsætnanna á vortískusýningarpöllum stærstu tískuhúsanna. 

Sjóðheit smokey

Smokey-augnförðunin fer aldrei úr tísku (hjúkk!). Ef þið vantar innblástur að smart útfærslu geturðu leitað til Tom Ford en það var förðunarmeistarinn Diane Kendal sem gerði gyllt smokey í anda áttunda áratugarins á augu fyrirsætnanna en ein þeirra var Kaia Gerber, dóttir ofurfyrirsætunnar Cindy Crawford sem hér sést.

Náttúrulegt

Hjá Prabal Gurung fengu fyrirsæturnar mikið dekur áður en þær mættu í hár og förðun. Húðin var algert aðalatriði og mikið lagt upp úr húðrútínunni áður en farði var borinn á. Förðunarmeistarinn Diane Kendal ýkti ljómandi húðina með örlitlum highlighter, setti nærandi varasalva á varirnar og nuddaði brúnum augnblýanti í kringum augun. 

Nú er það svart

Við getum stólað á Tom Ford þegar kemur að því að skapa sexí heildarútlit. Hér má sjá svart naglalakk baksviðs á vortískusýningunni hans. Okkur finnst það skemmtileg andstæða við ljósa og kvenlega fatahönnun vorsins. 

Beis

Í vortískunni í ár eru ljósir jarðtónar mjög áberandi, eins og beis- og kamellitur. Förðunin ber þess einnig merki en hér má sjá einstaklega smart útlit hjá Fendi. YSL kom nýverið á markað með nýja útfærslu af gullpennanum sívinsæla en sá nýi hylur meira en forveri hans. Notaðu hann á þá staði sem þarf nauðsynlega að hylja og notaðu sama tón á augu og varir. 

Næntís

Útlitið hjá tískuhúsinu Moschino minnti óneitanlega á Juliu Roberts í Pretty Woman. Næntís-varalitir halda vinsældum áfram en Velvet Teddy frá MAC er fullkominn í það útlit. Ef þú ert að leita að Astró-legum brúnum varablýanti er Double Fudge málið.