Myndlistar- og söngkonan Jóhanna V. Þórhallsdóttir opnar málverkasýninguna Vorflug á veirutímum í Gallerí Göngum við Háteigskirkju á sunnudaginn. Yfirskrift sýningarinnar er ekki úr lausu lofti þar sem hún segist vera mikil vorkona. Enda fædd í hrútsmerkinu og á einmitt afmæli á opnunardeginum 18. apríl.

„Maður lifnar alltaf við á vorin. Það er náttúrlega þannig og maður er bara að vonast til þess að komast á eitthvert flug eftir þessa veiruvímu,“ sagði Jóhanna eldhress í óðaönn við að hengja upp myndir sínar í Gallerí Göngum þar sem hún hefur ráðið ríkjum og stjórnað sýningum frá 2018.

„Ég læt ekkert deigan síga. Maður bara heldur áfram og verður alltaf að setja undir sig hornin, setja sér smá markmið og kýla á þetta svo maður drepist ekki úr leiðindum. Ég nenni því ekki.“

Litræn tjáning

Jóhanna er ekki síður þekkt sem söngkona og hún segir tónlistina vega þungt þegar hún er að mála og verkin á sýningunni eru mörg hver unnin við alls konar tónlist, klassík og djass.

„Maður fer inn í hugarheim með tónlistinni og það er bara svolítið svipað að syngja og mála. Maður er að tjá sig með litum,“ segir Jóhanna og bætir við að segja megi að myndlist hennar sé expressjónísk og að stemningin í þessum verkum sé nokkuð djössuð.

Vorflug á veirutímum er sjöunda einkasýning Jóhönnu á Íslandi og verkin á henni eru ný eða nýleg og mörg máluð í faraldrinum. „Elstu verkin eru reyndar máluð úti í Þýskalandi þegar ég komst þangað. Ég hef ekki sýnt þau hér en þau voru á sýningu þar í lok árs 2019,“ segir Jóhanna, sem þá tók þátt í samsýningu í Bad Reichenhall í Suður-Þýskalandi.

Geðlæknir í sálgæslu

„Þetta eru nokkrar, frekar stórar myndir og svo minni með og síðan er ég með nokkrar svarthvítar myndir af fjallasýn úr bókinni hans Óttars, mannsins míns, Sturlungu geðlæknisins,“ segir Jóhanna og á þar vitaskuld við Óttar Guðmundsson geðlækni.

Já, þú náttúrlega ert alltaf með geðlækninn í sálgæslu?

„Já, já. Hann er rosalega erfiður,“ segir Jóhanna og hlær þegar hún bætir við að þeim Óttari hafi þótt fyndið að setning úr síðustu Bakþönkum hans í Fréttablaðinu hafi ratað í fréttafyrirsögnina Eiginkona Óttars geðlæknis: „Þér finnst þú vera miðpunktur alheimsins, á Hringbraut.is þar sem haft var eftir Óttari að Jóhanna segði hann vera orðinn jafn sjálfhverfan og Snorra Sturluson.

Blessuð sóttvarnahólf

Jóhanna er eins og áður segir alvöru hrútur og á afmæli 18. apríl, þannig að þau tímamót renna saman við sýningaropnunina sem stendur frá 14 til 17 á sunnudaginn.

„Já, já. Maður er náttúrlega að halda upp á að loksins er maður að verða sixty four og getur sungið það með réttu. Það er bara þannig,“ segir Jóhanna og leggur áherslu á að vitaskuld verði allar sóttvarnareglur virtar í Gallerí Göngum.

„Ég reyni að hafa þetta löglegt. Það eru tuttugu í holli og það eru nokkur hólf þarna í kirkjunni sem maður getur reddað sér með, þannig að það er sko ómögulegt að mæta ekki.“

Vorflug a veirutímum stendur í mánuð og lýkur 18. maí. Sýningin er opin á virkum dögum milli klukkan 10 og 16 og eftir samkomulagi um helgar og þá auglýst sérstaklega á Facebook og heimasíðu kirkjunnar www.hateigskirkja.is.