Flugan stingur margan manninn hér heima og erlendis og bitin geta umbreyst í bólgur, mar eða jafnvel sýkingar hjá hinum óheppnustu.

Hér á landi er það hið alræmda lúsmý sem veldur mestum vandkvæðum en þessi vágestur mætti til landsins um 2015 og hefur nú dreifst um alla landshluta. Erlendis eru það helst moskítóflugurnar sem herja á ferðamenn sem margir bólgna illa með tilheyrandi kláða.

Ýmis ráð eru í boði til að fyrirbyggja bitin og einnig má bregðast við bitinu með meðulum og tækjum.

„Við sjáum núna að þetta er töluvert fyrr á ferðinni en í fyrra,“ segir Elsa Jóhannsdóttir, vörustjóri hjá Lyfju. „Ef við horfum á fólk í kringum okkur og söluna er þetta að dreifa sér á fleiri staði,“ segir hún.

Elsa bendir á að vinsælustu lausnirnar séu Afterbite í penna- eða kremformi. Þá sé til græja sem heitir Mýbitsbaninn sem gefur frá sér hita.

Sá útbitni setji græjuna yfir bitið og hitinn hafi áhrif á bólguna og kláðann. Hinir sérstaklega illa höldnu þurfi að grípa til bólgueyðandi stera. Elsa segir að armbönd sem innihaldi skordýrafælandi ilmolíur séu vinsæl fyrir börnin.

Til að verjast bitum megi nota fyrirbyggjandi sprey og skordýrafælur. „Algengustu staðirnir til að bera það á eru fætur og úlnliðir og bak við eyrun,“ segir Elsa. „Á þessi svæði sem eru helst að koma undan sænginni.“