Sólborg Guðbrandsdóttir hefur vakið athygli fyrir vasklega framgöngu sína sem baráttukona gegn kynferðisofbeldi. Hún heldur úti aðganginum Fávitar á félagsmiðlinum Instagram og hefur nú gefið út bók með sama nafni.

„Fávitar er samansafn af spurningum sem ég hef fengið sendar til mín á samfélagsmiðlum og á fyrirlestrum síðastliðin ár. Þær fjalla meðal annars um líkamann, kynlíf, ofbeldi, samskipti og fjölbreytileika og bárust mér aðallega frá ungu fólki, niður í tólf ára börn. Í Fávitum má finna svör við spurningum um sjálfsfróun og annað kynlíf, þungunarrof, getnaðarvarnir, blæðingar, kynsjúkdóma og ýmislegt því tengt.“

Virkilega þakklát

Bókin er myndskreytt af listamanninum Ethorio.

„Ég er virkilega þakklát fyrir alla sem komu að gerð bókarinnar og hefði ekki tekist þetta án þeirra og fjölskyldunnar minnar, sem hefur staðið þétt við bakið á mér allt ferlið og hjálpað mér gríðarlega,“ segir Sólborg, en fjölskyldan hennar skutlaði forpöntunum af bókinni með henni um Suðurnesin og höfuðborgarsvæðið.

Heimsfaraldurinn hafði ekki mikil áhrif á útgáfuna, þó að Sólborg hafi vissulega ekki haft færi á að halda útgáfufögnuð eða fylgja bókinni eftir með upplestri.

„Ég hef ekki getað hitt fólk og spjallað um bókina eða áritað eintök augliti til auglitis. Það er smá fúlt en við getum lítið gert í því. Í staðinn hef ég bara verið virkari á samfélagsmiðlum og átt í samskiptum við fólk þar. Það gengur vel.“

Góðar viðtökur

Viðtökurnar hafa verið frábærar að sögn Sólborgar.

„Ég er búin að fá virkilega góð viðbrögð og bókin hefur selst vel, bæði meðal unglinga og fullorðins fólks. Bókin er á leið í endurprentun í þessum töluðu orðum til að tryggja að hún sé til fyrir fleiri sem hafa óskað eftir henni í jólagjöf. Í síðastliðinni viku komst hún í 5. sæti metsölulista Eymundsson og jafnframt í 2. sæti metsölulista Forlagsins,“ segir hún.

Sólborg segir skóla víðs vegar um landið nú þegar hafa fest kaup á eintökum og sumir þeirra stefni á að nýta hana í kennslu á unglingastigi.

„Aðrir þeirra munu bjóða upp á hana á bókasöfnum skólanna. Svo hefur fjöldi félagsmiðstöðva einnig tryggt sér eintak.“

Eftirspurnin hefur ekki komið Sólborgu á óvart, enda mikil vöntun á kynfræðsluefni á íslensku.

„En það hversu hratt hún hefur selst hefur gert það. Á meðan skólakerfið tryggir ekki kynfræðslu fyrir öll ungmenni landsins, þá þurfum við að finna aðrar leiðir til að koma upplýsingunum til skila. Ég er eiginlega viss um að þessi bók geti kennt öllum sem lesa hana eitthvað, hvort sem það eru unglingar, foreldrar, fólk sem vinnur með börnum og unglingum eða aðrir.“

Mikil vinna

Þetta hefur verið virkilega lærdómsríkt ferli og skemmtilegt.

Sólborg hlakkar mikið til að halda upp á jólin í faðmi fjölskyldunnar og njóta þess að slaka á eftir þessa miklu keyrslu sem fylgir útgáfunni.

„Það er alveg ótrúlega skemmtilegt að gefa út bók en mikið rosalega er það mikil vinna. Rithöfundar og útgefendur eiga mikið lof skilið og það er frábært að sjá hversu margar bækur eru að koma út núna fyrir þessi jól til að stytta okkur stundir í þessu heimsástandi. En annars ætla ég bara að bíða róleg eftir bóluefni og finna mér eitthvað skemmtilegt að gera í millitíðinni.“