Hryllilega stuttar hrollvekjur er ný bók eftir Ævar Þór Benediktsson. Þar er að finna tuttugu hrollvekjandi smásögur sem er skipt í flokka eftir því hversu mikill hryllingurinn er: vont – verra – verst.

„Bókin er fyrir börn og unglinga sem hafa áhuga á hrollvekjum. Ég vil alls ekki ákveða markhópinn fyrirfram því krakkar eru svo missólgnir í hrollvekjandi sögur. Áhugi á hrollvekjum er mun meira persónubundinn en aldurstengur,“ segir Ævar Þór sem var mjög myrkfælinn þegar hann var ungur. „Þá var ég að stelast til að lesa bækur eins og þessa og horfa á myndir og þætti sem ég átti alls ekki að horfa á og auðvitað varð það kveikjan að mörgum andvökunóttum. Sérstaklega þegar þulan á RÚV byrjaði að segja að X-Files-þættirnir væru byggðir á sönnum atburðum. Það gerði vont verra,“ segir Ævar og hlær.

Skrímsli og vampírur

Þetta er ekki fyrsta bókin eftir Ævar sem leggur áherslu á hrollvekjandi sögur (Þín eigin hrollvekja kom út fyrir nokkrum árum), þó að þessi bók gefi vel í þegar kemur að hryllingnum. Ævar segist þó ætíð hafa laumað nokkuð hrollvekjandi tóni inn í allar bækur sínar, enda eru uppáhaldsbækurnar hans þegar hann var yngri af þeim meiði. Sögurnar í nýju bókinni eru ýmiss konar, sumar fjalla um skrímsli, vampírur og uppvakninga en aðrar um hversdagslegri hluti, eins og það að geta ekki hætt að naga á sér neglurnar eða þegar maður þarf að fara til tannlæknis.

Stysta sagan í bókinni, Strákurinn, er örstutt og snjöll, einungis tvær setningar:

„Það dó einu sinni lítill strákur í rúminu mínu.

Ég veit það vegna þess að hann sagði mér það.“

Um söguna segir Ævar Þór: „Þessi saga var miklu lengri, með mikilli baksögu og útskýringum. Unnustan mín, Védís Kjartansdóttir, las söguna yfir og benti mér full hreinskilni á það að eitthvað væri ekki að virka. Ég renndi aftur yfir textann, komst að því að hún hafði hárrétt fyrir sér og henti öllum textanum nema fyrstu tveimur setningunum. Sagan er mun betri fyrir vikið.“

Aðdáandi Stephens King

Ekki er hægt að tala um hryllingssögur án þess að minnast á konung hryllingsins Stephen King, sem Ævar Þór nefnir í eftirmála bókarinnar. „Þegar ég var fjórtán ára flutti frændi minn til útlanda og bað mig um að passa kiljusafnið sitt. Hann sagðist vita að ég myndi fara vel með það. Þar var stór hluti af bókum Kings. Á þessum tíma var ég búinn að lesa allar þær bækur hans sem voru til á íslensku og mér til mikillar gleði sá ég að þarna voru bækur sem var ekki búið að þýða, eins og t.d. Salem‘s Lot, It og Pet Sematary. Ég nánast kenndi sjálfum mér ensku með því að stauta mig hægt og rólega og svo smám saman æ hraðar í gegnum þessar bækur. Ég lærði líka svolítið að skrifa hrylling með því að lesa King og það eru örugglega frasar þarna inn á milli í nýju bókinni sem eru beint frá honum.“

Ævar Þór fékk rúmlega fimmtíu börn í Fossvogsskóla til að lesa sögurnar yfir og gefa þeim einkunnir eftir því hversu hryllilegar þær væru. „Svo raðaði ég sögunum í bókina eftir því. Ef lesanda verður um og ó eftir sögu sem er snemma í bókinni, þá er fínt að leggja bókina til hliðar í smástund því næsta saga mun verða verri.“

Spurður hvort margar sögur í bókinni endi illa segir Ævar Þór: „Margar hverjar, en ekki allar. Og oftar en ekki er það sögupersónunum sjálfum að kenna hvernig fer. Maður uppsker eins og maður sáir.“