„Ég er fyrir löngu búin að skreyta fyrir jólin, kaupa mér ný föt og baka smákökur, og ég byrjaði að hlusta á jólalög í október. Allt til að friða jólaköttinn,“ segir iðnhönnuðurinn Ragna Þórunn Ragnarsdóttir.

Hún er þriðji listamaðurinn sem hannar jólakött fyrir Rammagerðina.

„Sem barn var ég alltaf miklu hræddari við Grýlu en nú er ég mun hræddari við jólaköttinn sem fyrir mér er myrkravera í kattarlíki, send frá Grýlu. Það fylgir sennilega ábyrgð hinnar fullorðnu manneskju á undirbúningi jólanna því sem barn spáði ég ekkert í hann. Ég átti líka marga ketti sem barn og gat ekki farið að óttast einhvern jólakött, en eftir því sem ég varð eldri fór mér að líka verr við ketti og hugsaði sem svo að ekki vildi ég lenda í jólakettinum. Viðhorfið breyttist smám saman þegar ég fór að átta mig á því hvað kettir eru að gera úti og koma svo upp í rúm til manns; að þeir væru ekki jafn saklaus gæludýr og mér þótti þegar ég var lítil. Kettir eru nefnilega alveg lúmskir og auðvitað rándýr sem veiða sér til matar.“

Með frægt fólk í maganum

Það var um hásumar sem Ragna tók að sér að búa til jólakettina.

„Það var svolítið skrýtið að hugsa um jólin þá en ég lagðist undir feld til að ákveða hvernig ég gæti unnið jólaköttinn. Þá spratt fram sú góða speki að maður er það sem maður borðar og í framhaldinu fór ég að ímynda mér að kisi hefði étið einhvern og ákvað að skapa þann karakter í kettinum, svo hann fengi á sig yfirbragð þess sem hann át yfir sig af. Þegar ég fór svo að vinna kettina fannst mér óþægilegt að ímynda mér ástvini mína eða þá sem ég þekkti í belg kattarins,“ segir Ragna og hryllir sig.

Hún tók til þess ráðs að hlusta á handahófskennda lagalista á Spotify og varð þá fyrir áhrifum frá Eminem, Johnny Cash, Ginger Spice og fleiri listamönnum sem enduðu sumir sem karakterar í jólaköttunum.

„Ég gerði mér í hugarlund hvernig þeir myndu formast eftir að hafa verið étnir. Þannig eru sumir kvenlegir í laginu á meðan aðrir eru grófari og karlmannlegri, og í mismunandi litum. Þannig getur hver og einn tengt form jólakattarins við það hver étinn var en ég mata fólk ekki á því,“ segir Ragna og hlær.

Stofustáss og jólaskraut

Jólakettir Rögnu eru allir handrenndir á bekk og hefur hver og einn sitt einstaka form.

„Ég teiknaði í raun ekki mikið af formunum heldur renndi kettina eftir tilfinningunni hverju sinni og eftir því hvern þeir höfðu étið. Hver og einn jólaköttur er því einstakur og ekki til annar eins, þetta eru alls 25 kettir og allir númeraðir, enda safngripir eins og þau í Rammagerðinni hugsa jólakettina og næstu jól tekur annar listamaður við,“ greinir Ragna frá.

Hún hugsaði jólakettina sem stofustáss og jólaskraut í senn.

„Ég vildi ekki hafa kettina of jólalega en það má dressa þá upp á jólunum og svo geta þeir staðið í stofunni og sómt sér vel árið um kring. Á kössunum eru reyndar varnaðarorð um að sé kröfum jólakattarins ekki fullnægt um sómasamlegan jólaundirbúning sé hreinlega hægt að verða kettinum að bráð. Það er jafnframt hvetjandi fyrir okkur öll til að taka jólunum fagnandi,“ segir Ragna alvarleg í bragði.

Ragna fór til náms við listaháskóla í París þar sem námið fór fram á frönsku og án þess að kunna stakt orð í tungumálinu. Þaðan útskrifaðist hún með meistaragráðu í iðnhönnun. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Hugrökk á sumum sviðum

Ragna lærði iðnhönnun við Ensci Les Atelier í París.

„Mig langaði til náms í útlöndum og að prófa eitthvað nýtt. Ég fór því til Parísar að skoða skólann og leist rosalega vel á hann, fyrir utan að ég talaði ekki orð í frönsku og að námið fór allt fram á frönsku. Það var smá áskorun en ég hafði það af og kláraði masterspróf við skólann árið 2016. Ég var heppin með prófessora sem töluðu við mig táknmál og svo töluðum við mikið saman með teikningum og alls kyns reddingum, því þeir kunnu enga ensku. Svo þurfti ég iðulega að vera með fyrirlestra á frönsku og fékk þá vini til að lesa þá upp fyrir mig og lagði textana á minnið, en vissi ekkert hvað ég var að segja,“ segir Ragna og samsinnir því að hún sé greinilega hugrökk á sumum sviðum, þó ekki gagnvart jólakettinum.

Hún segir virkilega gaman að upplifa ánægju fólks þegar það eignast hluti eftir hana.

„Ég reyni að mynda tengsl við neytendur þannig að þeim finnist þeir hafa tekið þátt í hönnuninni með því að velja hvað er þeirra. Eins og þegar fólk velur sér kertastjaka og er endalaust lengi að því og segir: „Þennan!“ og svo: „Nei, þennan!“ Það finnst mér óskaplega gaman því úr verður tenging á milli mín, vörunnar og eigandans.“

Hjarðhegðunin að breytast

Sem listamaður prófar Ragna sig áfram með alls kyns efnivið og framleiðir allt sem hún gerir sjálf í höndunum og á verkstæði sínu á Grandanum.

„Ég vinn mikið með tilraunakennd efni og blanda saman ólíkum efnivið, allt frá kertastjökum upp í húsgögn á stórum skala. Ég er sjálfstætt starfandi listamaður og vinn undir mínu merki en tek líka að mér verkefni fyrir fyrirtæki eins og nú fyrir Rammagerðina og á dögunum afgreiðsluborð fyrir 66°Norður og svo er ég einn af hönnuðunum fyrir Fólk Reykjavík. Svo sel ég í verslanir kertastjaka, vasa og fleira í Rammagerðinni, Sky Lagoon og fleiri stöðum. Því er hægt að vera listamaður á Íslandi og lifa af: mér hefur allavega tekist það ágætlega síðustu tvö árin eftir að ég flutti til Íslands á ný,“ segir Ragna.

Hún segir íslenska listmunamarkaðinn lítinn en að landsmenn sæki sífellt meira í íslenska hönnun.

„Ég held að hjarðhegðun Íslendinga sé að breytast og það að eiga öll nákvæmlega eins heimili. Íslendingar sækja orðið meira í einstaka gripi og sérstaklega íslenska hönnun, eins og sýnir sig í Rammagerðinni sem ýtir mikið undir að íslensk hönnun verði aðgengilegri.“

Jólakötturinn kemur í Rammagerðina um helgina, en þess má geta að Rammagerðin fagnar eins árs afmæli verslunar sinnar í Hörpu með opnum degi í dag, laugardaginn 26. nóvember, frá klukkan 14 til 17. Þar verða hönnuðir, happadrætti með veglegum hönnunarvinningum og Berglind Festival fer með gamanmál.

Fylgist með því sem Ragna fæst við í listinni á ragna.co