Loftslagsnámskeið unga fólksins hefst í Hinu húsinu á morgun, 1. júlí. Finnur Ricart Andrason segir loftslagsbreytingar vera ungu fólki hjartans mál.

„Ungt fólk er uggandi fyrir framtíðinni og sjálfur hef ég fundið fyrir hræðslu og óvissu um framtíðina þegar ég hef lesið vísindaskýrslur um áhrif loftslagsbreytinga, enda er þessi framtíð sem við erum að berjast ekki svo langt frá okkur. Ég held þó að vonin sé óttanum yfirsterkari hjá ungu fólki. Það er ástæða þess að svo margir félagsmenn eru í Ungum umhverfissinnum. Við höldum í vonina og vinnum með voninni, því ef við hefðum ekki von um að geta bjargað framtíðinni fyrir börn og ungmenni heimsins væru engir ungir umhverfissinnar til.“

Þetta segir Finnur Ricart Andrason, sem verður fyrstur Íslendinga til að útskrifast úr hnattrænum sjálfbærnivísindum árið 2023. Námið stundar hann við háskólann í Utrecht í Hollandi.

„Ég hef alltaf haft áhuga á vísindum og lesið fréttir, vísindagreinar og vísindablöð frá því ég man eftir mér. Það var svo þegar ég stofnaði umhverfishóp á framhaldsskólaárum mínum í Genf í Sviss sem áhugi á loftslags- og umhverfismálum kviknaði fyrir alvöru. Þar unnum við að margvíslegum umhverfistengdum verkefnum og reyndist það mjög góð reynsla að hafa unnið og leitt þann hóp. Ég lærði svo að skilja enn betur um hvað umhverfismál, loftslagsbreytingar og samfélagsleg vandamál snúast þegar ég byrjaði í náminu í Hollandi, og eftir að ég gerðist félagi í Ungum umhverfissinnum heima á Íslandi. Á undanförnum mánuðum hef ég fundið að ég get beitt mér miklu meira en ég gat áður, sem mér finnst skemmtilegt og gefandi,“ segir Finnur.

Ungt fólk nálgast lausnirnar

Finnur er loftslagsfulltrúi hjá Ungum umhverfissinnum. Félagið er átta ára gamalt og eru félagsmenn nú þegar um 1.200 talsins.

„Helstu baráttumál Ungra umhverfissinna eru að stjórnvöld og aðrir aðilar samfélagsins taki meira tillit til umhverfisins almennt. Við vinnum að því í gegnum þrjá meginflokka: loftslagsmál, náttúruvernd og hringrásarhagkerfi, eða hringrásarsamfélag, eins og við viljum oft kalla það,“ upplýsir Finnur.

Hann segir ungt fólk ákaft í að leita lausna við loftslagsvánni.

„Loftslagsmál eru hjartans mál hjá ungu fólki nútímans. Það nálgast líka lausnirnar miklu meira en þau sem eru við völd og í stöðum til að finna og nýta lausnirnar. Ungt fólk hefur sterka umhverfisvitund og er almennt vel að sér um loftslagsmál, en hefur minni vitund um samfélagsleg áhrif loftslagsbreytinga, eins og til dæmis hvernig rasismi eða hagfræðilegt ójafnrétti tengjast loftslagsbreytingunum. Því er Loftslagsnámskeið unga fólksins kærkomið tækifæri til að víkka sjóndeildarhring þess.“

Finnur stundar nám í hnattrænum sjálfbærnivísindum við háskólann í Utrecht í Hollandi og verður fyrstur Íslendinga til að útskrifast sem sérfræðingur í þeim fræðum. MYND/AIDAN MEEKIN

Samfélagsleg gleraugu mikilvæg

Finnur er að vísa í þriggja daga skemmtilegt Loftslagsnámskeið unga fólksins sem haldið verður nú í vikunni, frá 1. til 3. júlí í Hinu húsinu við Rafstöðvarveg í Elliðaárdal.

„Námskeiðið er unnið í samstarfi við NOAH, systurfélag Ungra umhverfissinna í Danmörku. NOAH er hluti af enn stærri hreyfingu í heiminum, Friends of the Earth, og hafði samband við okkur; hvort við vildum vinna með þeim að þessu verkefni sem okkur fannst mjög spennandi,“ útskýrir Finnur.

Markhópur námskeiðsins er frá 15 til 35 ára.

„Þau sem taka þátt munu verða margs vísari um ýmsar hliðar loftlagsbreytinga. Yfirleitt miðast umræðan við umhverfisáhrifin og ungt fólk veit að loftlagsbreytingar eru mikil vá fyrir tilvist manna, en það veit minna um flóknu tengslin sem eru milli loftslagsbreytinga og ýmissa samfélagsþátta. Með námskeiðinu viljum við því draga fram í dagsljósið mikilvægi þess að horfa ekki bara á sjálfbærni með umhverfisgleraugum heldur einnig samfélagslegum gleraugum því það eru þrír þættir sem koma að sjálfbærni. Þeir eru umhverfismál, samfélagsmál og hagkerfið. Samfélög lifa innan marka umhverfisins, og gerir náttúran samfélögum kleift að vera til. Síðan eru það hagkerfin sem eiga að þjóna samfélaginu, en það er það sem svo oft gleymist. Oft er eins og að samfélögin hafi þann eina tilgang að þjóna hagkerfunum sem bitnar þá á náttúrunni sem gerir okkur kleift að lifa,“ upplýsir Finnur og heldur áfram:

„Á námskeiðinu verður sýnt fram á þau mörgu tengsl sem loftlagsbreytingar hafa inn í samfélagið sem við búum í, bæði þegar kemur að afleiðingum loftslagsbreytinga og því sem veldur þeim, sem er mannfólkið og samfélagið. En einnig verður talað um það að lausnirnar liggja líka í því sem við gerum sem samfélag,“ greinir Finnur frá.

Umhverfisrasismi alvarlegur

Loftslagsnámskeið unga fólksins verður haldið samtímis á Íslandi og í Danmörku, þar sem NOAH sendir út netviðburð sem sýndur verður á stórum skjá í Hinu húsinu.

„Þetta verður frábært tækifæri til að kynnast fleiri ungum umhverfissinnum á Íslandi, fræðast um framandi málefni sem tengjast loftslagsmálum og að sjálfsögðu að borða frábæran og frían vegan mat,“ segir Finnur og hlakkar mikið til.

Á hverjum degi verða haldnar þrjár vinnustofur í Hinu húsinu og fá þátttakendur að vinna saman í raunheimum að alls konar spennandi verkefnum, en hægt er að taka þátt í allri dagskránni eða einungis að hluta til.

„Loftslagsnámskeið unga fólksins gefur því enn fleiri verkfæri og fræðir þátttakendur um hugmyndir eins umhverfisrasisma, en dæmi um það er þegar rík lönd eins og Ísland mismuna öðrum löndum með því að gera ekki nóg í loftslagsmálum. Íslendingar verða fyrir minni loftslagsáhrifum en mörg önnur lönd, og með aðgerðarleysi er meiri afleiðingum varpað á annað fólk en Íslendinga,“ útskýrir Finnur.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Skráning er nauðsynleg og fer fram á Facebook-síðu viðburðarins, Loftslagsnámskeið unga fólksins, og á slóðinni bit.ly/2SdehOW

Dagskrá Loftlagsnámskeiðs unga fólksins er eftirfarandi:

DAGUR 1 (fimmtudagurinn 1. júlí)
9-10.30 Samtvinnun vinnustofa + ráðgátuleikur
11.30-13.30 Græn umskipti Noregs með Natur & Ungdom
HÁDEGISPÁSA (frír vegan matur í boði!)
14-16 Andvöxtur vinnustofa

DAGUR 2 (föstudagurinn 2. júlí)
9-10.30 Umhverfisrasismi vinnustofa
11.30-13.30 Rapp vinnustofa (Pieces for Palestine)
HÁDEGISPÁSA (frír vegan matur í boði!)
14-16 Rapp vinnustofa seinni hluti (Pieces for Palestine)
16.30-21 Sumarfögnuður UU

DAGUR 3 (laugardagurinn 3. júlí)
9-10.30 Kynjajafnrétti í hnattrænu samhengi vinnustofa
11.30-13.30 Kappræður um 'Græna sáttmála' ESB
HÁDEGISPÁSA (frír vegan matur í boði!)
14-16 Kyn og umhverfið vinnustofa