Hjónin Alexía Björg Jóhannesdóttir og Guðmundur Steingrímsson brutu heldur betur upp mynstrið í upphafi árs og héldu með börn sín tvö í víking til Mið – og Suður Ameríku. Kötturinn fór í pössun, fjölskyldubíllinn var seldur, húsið var sett í leigu og framundan eru mánuðir samveru og ævintýra – með einn bakpoka á mann.

 Við náðum tali af Alexíu í Costa Rica þar sem fjölskyldan ver fyrstu þremur vikum dvalarinnar við brimbrettaiðkun. „Við erum núna í litlum bæ að læra á brimbretti. Svo ef allt gengur að óskum er förinni heitið til Panama og eftir það er það er stefnan sett á Kólumbíu, Ekvator, Galapagos, Perú, Bólivíu, Chile, Argentínu og Úrúgvæ.“ Alexía segir það lengi hafa verið draumur þeirra hjóna að ferðast með börnin, Eddu 14 ára og Jóhannes 9 ára, í lengri tíma.

 Vinnan og heimalærdómur með í för

„Við seldum eitt og annað úr heimilishaldinu t.d. bílinn, fengum frábæra leigjendur og náðum að leggja fyrir síðustu mánuði með því vinna mikið. Börnin eru í Hagaskóla og Melaskóla og viðhorf kennarana þar var alveg frábært. Við munum að sjálfsögðu passa upp á að þau dragist ekki aftur úr í námi en skilaboðin frá skólunum voru meira um það að þau ættu að upplifa heiminn og læra af ferðinni frekar en að vera með nefið ofan í bókum. Þetta væri einstakt tækifæri.“ 

Þau hjón taka einnig með sér verkefni en bæði eru þau sjálfstætt starfandi. „En alveg eins og með börnin er líka mikilvægt að við séum ekki með nefið ofan í tölvunum allan daginn. Við þurfum að upplifa heiminn líka.“

Einn bakpoki á mann í sjö mánaða ferð

Aðspurð hvers vegna Mið- og Suður Ameríka hafi orðið fyrir valinu segir Alexía þau hafa langað að læra spænsku auk þess sem lönd álfanna séu bæði fjölbreytt og spennandi. „Svo höfum við aldrei komið á þessar slóðir áður.“ Undirbúningurinn fyrir slíka ferð er töluverður; „Við höfum gúgglað þetta allt í drasl. Sem sagt bara við og Google við eldhúsborðið.“ 

Aðspurð um áskoranir segir Alexía eina hafa verið að þurfa að velja lönd og sleppa öðrum úr þegar þau uppgötvuðu að þau gætu ekki náð yfir alla Suður Ameríku. 

„Svo voru það líka alls konar gögn sem við þurftum að vera búin að útvega okkur. Fæðingarvottorð barnanna, leyfi til að ferðast með barn sem býr á tveimur heimilum, bólusetningavottorð og fara í fullt af sprautum. Ferðatryggingar voru svo alveg sér kafli sem þurfti að tækla með því að anda djúpt. Það var líka áskorun að ákveða hvaða fáu flíkur og hlutir fengu að koma með þar sem við erum bara með einn bakpoka hver.

Miserfitt en mögulegt fyrir alla

Alexía segir áætlaða heimkomu vera einhvern tíma í júní eða júlí en aðspurð hvað þau vonist til að fá út úr ferðinni svarar hún í léttum tón: „Að koma heim brún og blönk, sultuslök með magavöðva og talandi spænsku. Við trúum því að það sé hollt að rífa sig upp og endurmeta lífið. Kynnast betur sjálfum sér, börnunum og veröldinni. Það er líklegast miserfitt fyrir fólk að rífa sig upp úr vinnu og daglegri rútínu en það er mögulegt fyrir alla.“