Hinn 21 árs gamli Natan Dagur sló á dögunum í gegn í Noregi þar sem hann kom, sá og sigraði í á­heyrnar­prufum í raun­veru­leika­þættinum The Voice. Þegar Natan var einungis 11 ára gamall birti hann mynd­band á Youtu­be þar sem sjá má hann syngja lagið With you með Chris Brown. Myndbandið má horfa á neðst í fréttinni.

Líkt og Frétta­blaðið greindi frá á dögunum tókst Natan að græta dómara þáttarins með mögnuðum flutningi sínum á laginu Bru­ises með Lewis Cap­aldi. Hann hafði aldrei sungið á sviði áður og því um kær­komna viður­kenningu að ræða fyrir Natan.

Í sam­tali við Frétta­blaðið út­skýrir Bene­dikt Viggós­son, faðir Natans, að Natan hafi upp­skorið háð skóla­fé­laga sinna fyrir mynd­bandið, sem sjá má hér að neðan. Þeir hafi gert grín að honum með þeim af­leiðingum að hann hætti að taka upp lög og syngja fyrir framan aðra.

„Ég fæ illt í hjartað að sjá þetta núna, vitandi hvaða við­brögð og við­tökur hann fékk frá vinum og skóla­fé­lögum á sínum tíma,“ út­skýrir Bene­dikt.

„Eftir þetta hætti hann að taka upp lög og syngja fyrir framan aðra,“ segir Bene­dikt. Natan var spenntur og hlakkaði til að stíga á svið í Voice. Það kom honum skemmti­lega á ó­vart að sjá hve mikla at­hygli flutningur hans vakti en líkt og fram hefur komið var það bróðir Natans sem skráði hann til leiks.

Natan er nú kominn á­fram í þáttunum og vakti prufan hans þjóðar­at­hygli. Þættirnir eru nú í sýningu í Noregi og spennandi að sjá hvernig Natani mun ganga.