Harry Bretaprins segist vona að börnin sín, þau Archie og Lilibet, muni aldrei þurfa að upplifa netheima eins og þeir eru í dag. Frá þessu er greint á vef Sky sjónvarpsstöðvarinnar.
Hann segir að leiðin sem fólk noti til samskipta á samfélagsmiðlum sé ekki að virka og það þurfi að lagfæra þetta. Hann segist hafa miklar áhyggjur af ungum börnum sem alist upp á netinu eins og það er í dag.
„Börnin mín eru of ung til þess að hafa upplifað þetta ennþá. Og ég vona að þau muni aldrei þurfa að upplifa þetta eins og þetta er í dag. Ekkert barn á að þurfa þess,“ segir Harry. Hann gagnrýnir jafnframt viðskiptamódel samfélagsmiðla, sem hann segir græða á tá og fingri á upplýsingum og athyglisgáfu fólks.
„Ég býst við því að fjölskyldur ykkar, rétt eins og mín, áttar sig á því að upplifun okkar af tækninni, þetta er ekki að virka og það þarf að laga þetta,“ segir prinsinn.
„Netið er að breytast og það er á okkar ábyrgð að sú breyting verði til bóta fyrir börnin okkar og framtíð þeirra.“