Úkraínski balletthópurinn Kyiv Grand Ballet flytur Hnotubrjótinn eftir Tsjajkovskíj ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu um helgina. Kyiv Grand Ballet hefur verið á tónleikaferðalagi um heiminn síðan stríðið hófst í Úkraínu og voru aðaldansarar hópsins, þau Larysa Hrytsai og Nicolai Gorodiskii, enn að venjast íslenska skammdeginu þegar blaðamaður náði tali af þeim.
Larysa: „Vegna stríðsins erum við búin að vera að sýna úti um allan heim. Við reynum að styðja Úkraínu því herinn þarf sífellt meiri peninga og meiri hjálp.“
Finnið þið fyrir miklum stuðningi við Úkraínu?
Nicolai: „Já, við finnum fyrir miklum stuðningi frá fólki. Ég var í Suður-Ameríku með hópnum og allir sem ég hitti þar studdu Úkraínu, sem gladdi okkur mjög.
Larysa: „Fólk í öllum borgum úti um allan heim styður Úkraínu, flytur okkur stuðningsræður og vonast til þess að stríðinu ljúki brátt.“
Fólk í öllum borgum úti um allan heim styður Úkraínu, flytur okkur stuðningsræður og vonast til þess að stríðinu ljúki brátt.
Draumur að koma til Íslands
Hnotubrjóturinn eftir Tsjajkovskíj er ein vinsælasta ballettsýning allra tíma og er ómissandi hluti af jóladagskrá margra tónlistarhúsa.
Larysa: „Þetta er sérstakur ballett fyrir mér, af því þegar ég tók þátt í minni fyrstu ballettsýningu dansaði ég við Hnotubrjótinn.“
Nicolai: „Hann er kannski ekki minn uppáhaldsballett en engu að síður sérstakur því þegar við fluttum hann í Úkraínu 2019 söfnuðum við næstum 10.000 dölum sem við gáfum til barnaspítala í Kænugarði. Það var einstakt að flytja hann þá og þetta er virkilega fallegur ballett.“
Hvernig líst ykkur á Ísland?
Larysa: „Þetta er fyrsta skipti mitt hér en það hefur lengi verið draumur minn að koma til Íslands. Þegar við komum hingað í gær var ég slegin á góðan hátt yfir því hversu fallegt landið er.“
Nicolai: „Í gær var ég svo þreyttur að ég áttaði mig ekki á því að ég væri á Íslandi. Í morgun kunni ég betur að meta það. Útsýnið er mjög indælt og tónlistarhúsið virkilega fallegt. Ég var steinhissa í morgun þegar klukkan var korter yfir níu og það var ennþá dimmt úti. En landið er mjög fallegt.“

Sýning fyrir flóttamenn
Kyiv Grand Ballet hélt sérstaka sýningu á Hnotubrjótnum í gær fyrir úkraínska flóttamenn hér á landi. Spurð um hvernig það sé að hitta samlanda sína sem flúið hafa stríðið svarar hún:
Larysa: Það eru alltaf fagnaðarfundir þegar maður hittir úkraínska flóttamenn og ég er virkilega glöð í hvert skipti sem Úkraínumenn koma á sýningar.“
Hvenær haldið þið að þið munið snúa aftur til Úkraínu?
Larysa: „Ég er fædd í Karkív sem er nálægt Rússlandi. Þetta er í fyrsta skipti sem ég er svo lengi í burtu frá Úkraínu. Auðvitað vil ég snúa aftur, mig dreymir um að búa og vinna í Úkraínu en það er ennþá hættulegt. Mamma mín er í Karkív og ég vona að stríðið klárist bráðum svo ég geti farið aftur heim.“
Nicolai: „Ég vona að ég geti snúið aftur heim sem allra fyrst. Ég sakna Úkraínu svo mikið og kærastan mín vill fara með mig á ólíka staði sem ég hef aldrei heimsótt áður. Þannig að ég vona að stríðið klárist sem fyrst.“