Úkraínski ballett­hópurinn Kyiv Grand Ballet flytur Hnotu­brjótinn eftir Tsja­jkovskíj á­samt Sin­fóníu­hljóm­sveit Ís­lands í Hörpu um helgina. Kyiv Grand Ballet hefur verið á tón­leika­ferða­lagi um heiminn síðan stríðið hófst í Úkraínu og voru aðal­dansarar hópsins, þau Larysa Hryt­sai og Nicolai Gor­odiskii, enn að venjast ís­lenska skamm­deginu þegar blaða­maður náði tali af þeim.

Larysa: „Vegna stríðsins erum við búin að vera að sýna úti um allan heim. Við reynum að styðja Úkraínu því herinn þarf sí­fellt meiri peninga og meiri hjálp.“

Finnið þið fyrir miklum stuðningi við Úkraínu?

Nicolai: „Já, við finnum fyrir miklum stuðningi frá fólki. Ég var í Suður-Ameríku með hópnum og allir sem ég hitti þar studdu Úkraínu, sem gladdi okkur mjög.

Larysa: „Fólk í öllum borgum úti um allan heim styður Úkraínu, flytur okkur stuðnings­ræður og vonast til þess að stríðinu ljúki brátt.“

Fólk í öllum borgum úti um allan heim styður Úkraínu, flytur okkur stuðnings­ræður og vonast til þess að stríðinu ljúki brátt.

Draumur að koma til Íslands

Hnotu­brjóturinn eftir Tsja­jkovskíj er ein vin­sælasta ballett­sýning allra tíma og er ó­missandi hluti af jóla­dag­skrá margra tón­listar­húsa.

Larysa: „Þetta er sér­stakur ballett fyrir mér, af því þegar ég tók þátt í minni fyrstu ballett­sýningu dansaði ég við Hnotu­brjótinn.“

Nicolai: „Hann er kannski ekki minn upp­á­halds­ballett en engu að síður sér­stakur því þegar við fluttum hann í Úkraínu 2019 söfnuðum við næstum 10.000 dölum sem við gáfum til barna­spítala í Kænu­garði. Það var ein­stakt að flytja hann þá og þetta er virki­lega fal­legur ballett.“

Hvernig líst ykkur á Ís­land?

Larysa: „Þetta er fyrsta skipti mitt hér en það hefur lengi verið draumur minn að koma til Ís­lands. Þegar við komum hingað í gær var ég slegin á góðan hátt yfir því hversu fal­legt landið er.“

Nicolai: „Í gær var ég svo þreyttur að ég áttaði mig ekki á því að ég væri á Ís­landi. Í morgun kunni ég betur að meta það. Út­sýnið er mjög indælt og tón­listar­húsið virki­lega fal­legt. Ég var stein­hissa í morgun þegar klukkan var korter yfir níu og það var enn­þá dimmt úti. En landið er mjög fal­legt.“

Kyiv Grand Ballet héldu sér­staka sýningu á Hnotu­brjótinum í Hörpu fyrir úkraínska flótta­menn hér á landi.
Fréttablaðið/Anton Brink

Sýning fyrir flóttamenn

Kyiv Grand Ballet hélt sér­staka sýningu á Hnotu­brjótnum í gær fyrir úkraínska flótta­menn hér á landi. Spurð um hvernig það sé að hitta sam­landa sína sem flúið hafa stríðið svarar hún:

Larysa: Það eru alltaf fagnaðar­fundir þegar maður hittir úkraínska flótta­menn og ég er virki­lega glöð í hvert skipti sem Úkraínu­menn koma á sýningar.“

Hve­nær haldið þið að þið munið snúa aftur til Úkraínu?

Larysa: „Ég er fædd í Karkív sem er ná­lægt Rúss­landi. Þetta er í fyrsta skipti sem ég er svo lengi í burtu frá Úkraínu. Auð­vitað vil ég snúa aftur, mig dreymir um að búa og vinna í Úkraínu en það er enn­þá hættu­legt. Mamma mín er í Karkív og ég vona að stríðið klárist bráðum svo ég geti farið aftur heim.“

Nicolai: „Ég vona að ég geti snúið aftur heim sem allra fyrst. Ég sakna Úkraínu svo mikið og kærastan mín vill fara með mig á ó­líka staði sem ég hef aldrei heim­sótt áður. Þannig að ég vona að stríðið klárist sem fyrst.“