Helga er menntaður fatahönnuður og þó svo hún vinni á mörkum hönnunar og lista notast hún aðallega við aðferðafræði hönnunar.

„Ég hef alltaf skilgreint mig sem fatahönnuð, en hins vegar hef ég fundið mér vettvang innan fagsins sem leitar meira í þekktar aðferðir myndlistar. Fatahönnun er þó minn meginmiðill og er ég alltaf að hanna fyrir líkama á einhvern hátt, og að ögra formi fatnaðar á vissan hátt.

Fatnaður getur verið margs konar og teygt anga sína inn á fjölmörg fagsvið. Þetta er eitthvað sem ég hef gaman af að rannsaka. Ég vinn mikið með samband líkama, rýmis og fatnaðar og hvernig þessir þrír þættir geta unnið saman og hannað fatnað. Að sama skapi hef ég unnið mikið með skúlptúrísk form og hvernig þau mynda fatnað í samhengi og sambandi við líkamann. Líkaminn er grunnform og ég byggi upp verk mín í kringum hann, sem er í sjálfu sér grunnur allrar fatahönnunar. Ég tel það mikilvægt að bjóða líkamanum inn í ferlið frá upphafi og því nota ég til dæmis mikið sjálfa mig sem verkfæri innan hönnunarferlisins,“ segir Helga.

„Þó ég hafi teygt anga mína út fyrir hefðbundna túlkun á fatahönnun, eiga verk mín samt enn heima innan sviðsins. Ég vinn með fatnað. Líkaminn er alltaf í lykilhlutverki og er það sem bindur verkið saman. Fyrir mér er það fatahönnun, að hanna fyrir líkama.“

Það er margt á döfinni og meðal annars munu Helga Lára og Jóna Berglind sýna afrakstur samstarfsverkefnisins Objective í Ásmundarsal frá og með 17. júní. Fréttablaðið/Anton Brink.

Fátt skemmtilegra en skóli

Helga Lára útskrifaðist árið 2015 með BA í fatahönnun frá Listaháskóla Íslands. Eftir útskrift flutti hún til London og starfaði í tæpt ár hjá hönnuðinum Alex Mullins sem hönnuður og framleiðslustjóri. Þá lá leið hennar í meistaranám í fatahönnun til Svíþjóðar við The Swedish School of Textiles og útskrifaðist hún árið 2018 með MFA í fatahönnun. Þá kennir hún við Listaháskólann og Myndlistaskólann í Reykjavík.

Að sögn Helgu var það alltaf stefnan að fara í fatahönnun.

„Ég byrjaði eins og flestir í þessum bransa að gæla við þetta mjög snemma. Þetta þróaðist allt mjög náttúrulega hjá mér og á vissan hátt leiddi alltaf eitt verkefnið af öðru. Ég vissi alltaf að ég ætlaði í meira nám og var búin að setja stefnuna á meistaranám áður en ég lauk BA. Mér þykir fátt skemmtilegra en að vera í skóla og þess vegna held ég að ég hafi líka leitað þangað aftur í gegnum kennsluna.“

Helga segist predika það á hverjum degi við nemendur sína að finna eigin nálgun á fatahönnun og víkka út sviðið ef þess þurfi.

„Ég er að kenna við ýmsar deildir og brautir en nálgunin er í mínum huga alltaf sú sama, að byggja upp sterka aðferðafræði sem auðveldar nemanda allan rökstuðning og þar með að skila af sér sterkri rannsókn sem framlag til fagsviðsins. Það verðmætasta sem þessir tveir skólar geta gert er að skila af sér öflugum nemendum og það er lykilatriði í framgangi greinarinnar. Svið fatahönnunar er stórt og fjölbreytt og gerir hverjum og einum kleift að finna og þróa sinn persónulega vettvang.“

Helga segist vera rannsóknamiðaður hönnuður.

„Akademíska umhverfið á því mjög vel við mig og vonast ég til þess að geta verið að kenna áfram með fram sjálfstæðum verkefnum og sýningum, þar sem ég get miðlað þverfaglegum rannsóknum á sviði fatahönnunar á fjölbreyttan máta.“

Sýnishorn úr Objective-samstarfi þeirra Helgu Láru og Jónu Berg­lindar.

Gæla og Objective

Helga Lára vinnur að eigin sköpun og er í áhugaverðu samstarfi við fatahönnuðinn Mörtu Heiðarsdóttur og textílhönnuðinn Jónu Berglindi.

„Eftir meistaranámið fann ég hvað ég var orðin þreytt á sjálfri mér. Í svona námi vinnur maður alfarið einn og því fylgir ákveðin einsemd, þrátt fyrir að hafa bekkjarfélagana til þess að þjást með. Ég henti mér því í tvö öflug samstarfsverkefni sem eru enn starfandi í dag þrátt fyrir leiðinlegt COVID-ár. Nú ætti þetta allt að vera upp á við og er fullt af sýningum á dagskrá fyrir seinni hluta þessa árs.“

Helga og Jóna hófu samstarf sitt Objective, eftir að hafa lokið meistaranámi í Svíþjóð, Helga í fatahönnun og Jóna í textíl.

„Við áttuðum okkur á því að við vorum að vinna á frekar svipaðan hátt og með álíka nálgun í hönnunarferlinu. Þar að auki erum við með sama húmorinn sem er lykillinn í þessu samstarfi. Þetta leiddi til þess að við létum á það reyna að skella í eitt verkefni saman í lok árs 2018 og erum við enn að.“

Leikur, húmor og líkamleiki eru lykilhugtök í aðferðafræði og hönnunarferlinu og skila sér í sýningarform Objective teymisins. Það verður mögulega hægt að róla sér í buxnarólunni á sýningunni í Ásmundasal.

Í Objective rannsaka Helga og Jóna mörk skúlptúrsins og hvernig megi vinna hann í samhengi við líkamann. Leikur, húmor og líkamleiki eru lykilhugtök í aðferðafræðinni og hönnunarferlinu og skila sér í sýningarform teymisins.

„Þá er oft þörf á því að virkja verkið með gjörningi eða aðkomu líkamans á einhvern hátt og þar með fullkomnast það. Hlutverk hluta eru okkur einnig hugleikin og hvernig er hægt að ögra samhengi hluta í okkar nærumhverfi. Þá könnum við og rannsökum klæðanlega hluti og rými, hvernig megi beygja fyrir fram ákveðin viðmið samfélagsins gagnvart eigin hlutum og umhverfi og skapa húmanískan skúlptúr í leiðinni.“

Það vekur athygli að litirnir sem þær Jóna og Helga vinna með eru oft á tíðum sterkir grunnlitir; rauður, blár og gulur.

„Ég vinn mikið með grunnlitina og nota þá til þess að hanna og þróa kerfi innan eigin hönnunarferlis. Þetta er eitthvað sem ég tók með mér inn í Objective. Jóna vinnur einnig mikið með sterka liti og við erum alltaf að vinna með vissa leikgleði og samtal við áhorfandann í verkum okkar. Þar hjálpa litirnir mikið og draga áhorfandann á virkari hátt inn í verkið.“

Helga notar liti á áhugaverðan máta og tekur það inn í Objective samstarfið.

Samstarf Helgu og Mörtu nefnist Gæla eða Pet.

„Við Marta kynntumst fyrst í hönnunarlýðháskóla, Den Skandinaviske Designhøjskole. Þar vorum við báðar nægilega ungar, saklausar og vitlausar til að henda okkur í frekara nám í fatahönnun. Leiðir okkar lágu saman eftir að ég flutti formlega aftur heim eftir meistaranámið. Gæla rannsakar tilfinningalegt vægi hluta og fatnaðar og hvernig megi auka það hjá einstaklingnum. Með auknu tilfinningalegu gildi fatnaðar og hluta og aukinni umhyggju eigenda viljum við leiða til lengri líftíma hlutanna. Gæluhlutir gera neytanda kleift að hugsa um og klappa eigin hlutum. Þetta styður við samband neytanda og vöru og býr til áhugavert samtal og samband þar á milli.

Gæla er einnig ádeila á framleiðsluferli fataiðnaðarins. Við Marta höfum báðar unnið við framleiðslu á fatnaði og áttuðum okkur á því að kerfið eins og það vinnur í dag gengur einfaldlega ekki upp. Þar af leiðandi leitast Gæla eftir því að bjóða upp á annars konar „vörur“ til að kaupa, til dæmis í formi upplifana eða aðgerða. Því er í sumum tilvikum hreyfingin sem hluturinn skapar raunveruleg niðurstaða, frekar en varan sjálf.“

Gæla er tilraunaverkefni þeirra Helgu Láru og Mörtu þar sem markmiðið er meðal annars að rannsaka hvort hægt sé að auka tilfinningalegt gildi hluta með því að gefa neytanda færi á að veita hlutnum umhyggju.

Eins og að biðja einhvern um að byrja með sér

Að sögn eru samstarfsverkefnin tvö jafnlík og þau eru ólík.

„Bæði verkefnin eru mjög skemmtileg og vinna með húmor og ádeilu á svokallað „status quo“ innan fagsins.“

Helga segir það fyndið að hefja samstarf með öðrum hönnuði.

„Þetta er álíka og að biðja einhvern um að byrja með sér. Maður er ekki alveg viss um hvort hinn aðilinn sé jafnspenntur og maður sjálfur. Svo þegar maður áttar sig á því að maður sé að „byrja með“ öðrum hönnuði myndast einhver skemmtilega spenna. Samstarf og verkefni sem byggja á þverfaglegri nálgun er algerlega framtíðin. Þetta er allavega eitthvað sem hentar mér einstaklega vel og hefur hjálpað mér að þróa mín eigin verkefni áfram. Það að geta rætt hugmyndir sínar og speglað sig í öðrum er einstaklega gott verkfæri í hönnunarferlinu.“

Gæla er einnig ádeila á framleiðsluferli fataiðnaðarins. Þá leitast Gæla við að bjóða upp á annars konar „vörur“ til að kaupa, til dæmis í formi upplifana eða aðgerða.

Margt á döfinni

Helga er að undirbúa tvær sýningar á vegum Objective.

„Við Jóna Berglind munum sýna á Southern Sweden Design Days í lok maí í Malmö. Síðan erum við á fullu að undirbúa einkasýningu Objective í Ásmundarsal sem opnar 17. júní með fylgjandi húllumhæi! Við tökum yfir safnið í mánuð og verðum með vinnustofudvöl yfir allt tímabilið. Því verður alltaf eitthvað nýtt að sjá og upplifa yfir dvölina og alltaf hægt að fá nýjan vinkil á sýninguna og jafnvel róla með okkur í buxnarólum eða taka sundsprett í Gunnfríðargryfju.

Auk þess er Gæla að byrja að selja fyrstu formlegu vöruna okkar sem í þetta skiptið eru töskur sem hafa fengið mjög góðar viðtökur. Við höfum varla náð að auglýsa töskurnar en erum að verða búnar með fyrsta upplag. Við erum að vinna að því að skapa okkur vettvang fyrir söluna á netinu með óhefðbundnu sniði. Eitt meginmarkmið Gælu er að kanna hvort hægt sé að selja neytanda upplifun í stað raunverulegrar vöru og ögra þar með því hvernig við kaupum og seljum hluti og fatnað í dag. Við finnum okkur knúnar til þess að rannsaka þetta sjónarmið í gegnum hefðbundna sölu sem og óhefðbundna og erum við að hefja það ferli núna.“

Hér má sjá sýnishorn úr útskriftarlínu Helgu Láru úr The Swedish School of Textiles, Cornered Compositions. Myndir/aðsendar.

Miklu skemmtilegra að vera enn að leita

Helga segir að viðhorf sitt til fatahönnunar hafi breyst töluvert og þróast í gegnum árin og sér finnist hún alltaf vera að komast nær einhverju svari.

„Flest mín verk í dag varpa fram fleiri spurningum en þau svara, en spurningu má alveg túlka sem svar á ákveðnum grundvelli. Ég vona samt að ég finni aldrei fullkomlega þetta svar, það er svo miklu skemmtilegra að vera enn að leita. Það heldur mér á tánum og býður upp á skemmtilegra ferli en ella,“ segir Helga að lokum.