Vitnað er í hinn ellefu ára gamla Atla Svavars­son í skýrslu ís­lenskra stjórn­valda um inn­leiðingu heims­mark­miðanna sem birtist á vef Sam­einuðu Þjóðanna en Svavar Hávarðs­son, faðir Atla greinir frá þessu á Face­book síðu sinni í dag. Skýrslan er hluti af lands­rýni Ís­lands á stöðu inn­leiðingar heims­mark­miðanna um sjálf­bæra þróun og var birt í dag.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Atli fyrir löngu vakið gífur­lega at­hygli fyrir skel­egga fram­göngu sína í um­hverfis­málum og fékk til að mynda sam­fé­lags­verð­laun Frétta­blaðsins í fyrra fyrir stofnun sína á verk­efninu #sa­vet­heworld árið 2017 sem snýst um að tína rusl í náttúrunni.

„Fiskar, fuglar og hvalir borða plastið og dýrin geta dáið. Ég hef séð myndir af dauðum hvölum og fuglum sem er hræði­legt. Upp­á­halds­fuglinn minn er spói, og ég sá einn sem var eins og plast­skrímsli, ég fór bara að gráta,“ er haft eftir Atla á blað­síðu 93 í skýrslunni.

Dregur þá á­lyktun að við séum farin að hlusta á börnin okkar

„Þegar Sam­einuðu þjóðirnar birta á vef sínum skýrslu ís­lenskra stjórn­valda um inn­leiðingu heims­mark­miðanna þá hlýnar mér um hjarta­ræturnar að vitnað er í guttann minn,“ ritar Svavar og segir að því verði ekki neitað að til­vitnunin hafi komið skemmti­lega á ó­vart.

„Ég dreg þá á­lyktun af þessu að við erum farin að hlusta á börnin okkar og á­hyggjur þeirra af fram­tíðinni. Það er þó ekkert annað en skylda okkar,“ ritar Svavar.

Frétta­blaðið hefur í­trekað greint frá mögnuðum af­rekum þeirra feðga í bar­áttunni gegn plast­mengun, meðal annars í síðasta mánuði, þar sem fram kom að feðgarnir hefðu fyllt 150 sekki af rusli í vor og voru þeir ný­komnir inn úr plokk­ferð úr Hóps­nesi við Grinda­vík þegar blaðamaður náði tali af þeim.

For­sætis­ráð­herra leiðir kynningu á skýrslunni 16. júlí

Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra Ís­lands, mun leiða kynningu Ís­lands hjá Sam­einuðu þjóðunum þann 16. júlí næst­komandi en skýrslan er liður í fyrstu lands­rýni Ís­lands á heims­mark­miðunum á vett­vangi Sam­einuðu þjóðanna. Aðildar­ríki eru hvött til að kynna lands­rýni að minnsta kosti þrisvar á gildis­tíma heims­mark­miðanna til ársins 2030.

Sam­kvæmt upp­lýsingum á vef Stjórnar­ráðs Ís­lands er sér­stök á­hersla lögð í skýrslunni á kyn­slóðina sem mun taka við eftir að gildis­tími heims­mark­miðanna hefur runnið sitt skeið.

Í ár er þrjá­tíu ára af­mælis­ár Barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna og þykir við hæfi að hafa í heiðri á­kvæði sátt­málans um að börn hafi rétt á að láta skoðanir sínar í ljós til að hafa á­hrif á þau mál­efni sem þau varða. Er að finna til­vitnun í börn í hverjum kafla skýrslunnar.