Bjarni Haukur Þórsson og Sigurður Sigurjónsson hafa með reglulegu árabili kitlað hláturtaugar þúsunda leikhúsgesta meðal annars með leikverkunum Pabbinn, sem var frumsýnt í Iðnó 2007, og Afanum í Borgarleikhúsinu 2011 en sá einleikur var jafnframt sýndur ríflega hundrað sinnum um landið þvert og endilangt.
Bjarni Haukur segir þá félagana njóta þess að vinna saman og að þeir hafi hingað til, bæði í fyrrnefndum einleikjum sem og Hellisbúanum, How to become Icelandic, Maður sem heiti Ove að ógleymdri bíómyndinni um Afann, skipst á að leika og leikstýra hvor öðrum.
Bjarni Haukur segir að eftir því sem liðið hafi á samstarfið hafi þeir stundum grínast með hvort þeir séu virkilega að fara að henda í enn einn einleikinn og velt því fyrir sér hvort þetta sé bara kannski komið gott.
Enn ein vitleysan
Þegar heimsfaraldurinn lagði sína dauðu hönd yfir leikhúslífið í landinu segir Bjarni Haukur þá, eins og fleiri, hafa fengið tíma til að hugsa, þannig að þeir fóru að velta fyrir sér hvað þá langaði að gera þegar allt yrði vonandi eðlilegt á ný.
„Þá svona datt okkur í hug hvort við ættum kannski að gera eitthvað sem við hefðum aldrei gert áður og vera saman á sviðinu. Við fórum svo bara einhvern veginn að vinna í þessu og nú verður ekki aftur snúið og við búnir að koma okur í enn eina vitleysuna.“
Pabbinn finnur afann
Þegar pabbinn hafði þarna, nokkuð óvænt ef til vill, fundið afann blasti við að það þyrfti að kippa þriðja manninum, leikstjóranum Guðjóni Davíð Karlssyni, inn á.
„Við veltum því nú fyrir okkur hver það ætti að vera en vorum alveg sammála um að við þyrftum að hafa einhvern sem þekkti svolítið okkar húmor og sagnastíl en væri samt harður húsbóndi og Gói er það vissulega,“ segir Bjarni Haukur og bætir við að samvinna þeirra þriggja sé búin að vera frábær.
Taumhald á afa og pabba
„Gói er líka bara nákvæmlega það sem við þurfum, sko. Einhver sem heldur okkur við efnið af því að við eigum það nú alveg til að láta gamminn geisa.“
Bjarni Haukur segir vinnulagið í nokkuð föstum skorðum. Hann byrji yfirleitt á því að skrifa uppkast sem þeir Siggi hendi sín á milli.
„Það er sami stíll á þessu núna nema að við erum með Góa líka sem er alveg frábært,“ segir Bjarni Haukur en afraksturinn verður frumsýndur í Hörpu 15. mars.