Heilinn á bak við tónlistina í þáttunum er enginn annar en Ragnar Ólafsson, sem að eigin sögn er þúsundþjalasmiður þegar kemur að tónlist.

„Ég hef gaman af því að fást við alls konar tónlistarstefnur. Flestir þekkja mig líklega úr hljómsveitinni Árstíðum eða hafa heyrt af sólóverkefninu mínu,“ segir Ragnar, sem hefur einnig í gegnum árin pródúserað lög fyrir söngvakeppnina, starfað sem trúbador og spilað dinner-djass. Að auki hefur hann spilað með þungarokkssveitum eins og Ask the Slave, ferðast um heiminn með hljómsveitinni Sólstöfum sem organisti og kemur fram á tónleikum með Sign.

„Á síðustu árum hef ég svo verið að færa mig yfir í að semja fyrir sjónvarp og kvikmyndir. Ég hef áður gert tónlist fyrir stuttmyndir, heimildarmyndir, trailera og nokkur viðbótarlög við kvikmyndir, en þetta er í fyrsta skipti sem ég hef gert tónlist fyrir heila seríu,“ segir Ragnar.

Hann segir vestið vera þannig gert að það passar hreinlega við allt og á öllum árstíðum. Það sé hæfilega rokkaralegt, passlega artí, nógu snyrtilegt en líka nógu kærulaust.
Ernir

Að fara í vesti er fljótlegasta og auðveldasta leiðin til að klæða sig upp. Það er endalaust hægt að leika sér með mismunandi samsetningar og vestið góða passar við allt.

Vestið góða alltaf með í för

Á öllum þessum tónleikaferðalögum segir hann eina flík alltaf leynast í töskunni. Það sé vestið góða.

„Ég hef sennilega spilað megnið af tónleikunum síðan árið 2018 í þessu vesti,“ segir Ragnar. Vestið góða kom í hendur Ragnars þegar hann var á tónleikaferðalagi fyrir nokkrum árum. „Mig sárvantaði hrein föt til að fara í á sviðið. Fiðlari sem var að ferðast með mér rétti mér vesti og ég hef varla farið úr því síðan. Ég er með nokkur svona „go-to“ fatasett, en einhvern veginn enda ég alltaf á því að bæta þessu blessaða vesti við blönduna. Þetta vesti passar einhvern veginn fullkomlega inn í hvaða árstíð sem er. Að fara í vesti er fljótlegasta og auðveldasta leiðin til að klæða sig upp. Það er endalaust hægt að leika sér með mismunandi samsetningar og vestið góða passar við allt. Sökum þess hvað ég hrærist í mörgum mismunandi tónlistarstefnum hef ég þróað fatastíl sem virkar í öllum senum, og vestið leikur þar lykilhlutverk. Það er hæfilega rokkaralegt, passlega artí, nógu snyrtilegt en líka nógu kærulaust. Svo er líka auðvelt að þrífa vesti og þau lúkka alltaf vel þótt þau séu krumpuð, sem er óneitanlega kostur á löngum tónleikaferðalögum,“ segir Ragnar.

Ragnar segir fatastíl sinn í senn kærulausan og útpældan.

„Tónlist er bæði áhugamálið mitt og vinnan mín, þannig að í raun er ég alltaf vinnandi. Ef ég er ekki á tónleikaferðalagi þá eyði ég öllum mínum stundum uppi í tónveri að búa til tónlist. Þess vegna fíla ég að ganga í fötum sem eru bæði þægileg, auðveld að klæða sig í og líta vel út. Yfirleitt eru það kærustur sem sjá um að kaupa handa mér föt, en svo kíki ég kannski í H&M á tónleikaferðalögum þegar mig vantar hreina sokka,“ segir Ragnar og hlær.

Vitjun í símtali

„Þetta hófst allt með einu símtali frá Evu Sigurðardóttur leikstjóra vorið 2020,“ segir Ragnar um tónlistarverkefnið í Vitjunum. „Hún var að kanna hvort ég hefði áhuga á verkefninu og væri laus. Tímasetningin var fullkomin enda gat ég ekki túrað eftir að Covid skall á og vantaði eitthvað til að gera. Svo tengdi ég líka strax við þessa sögu. Í þessu fyrsta símtali lýsti Eva söguþræðinum fyrir mér í stuttu máli og út frá því fékk ég strax hugmyndir að stefum og tónverkum sem rötuðu í þættina,“ heldur Ragnar áfram.

„Ég var svo heppinn að koma inn í ferlið nokkrum mánuðum áður en tökur hófust. Við Eva hittumst nokkrum sinnum og ræddum á heimspekilegum nótum um hvert hlutverk tónlistarinnar ætti að vera og hvernig hún gæti þjónað sögunni.“

Ragnar telur það ekki ósennilegt að hann hafi klæðst vestinu á öllum tónleikum frá 2018.

Litir og ljós, þetta er bara tíðni, alveg eins og tónar, og mín vinna felst meðal annars í því að finna réttu hljóðtíðnina við það sem við sjáum á skjánum.

Hver þögn á sér tilgang

Ragnar segist vera algjört kamelljón í öllu sem hann gerir.

„Í hverju verkefni sem ég tek að mér reyni ég að gera eitthvað allt öðruvísi en ég hef gert áður. Það skiptir mig miklu máli að hvert verkefni hafi algjörlega sinn eigin hljóm. Ég hef pínu gaman af því að vera dramatískur og það er kannski rauður þráður sem tengir öll mín verkefni. Sem betur fer er fullt af dramatískum hápunktum í Vitjunum þannig að ég gat stundum sleppt fram af mér beislinu í tónverinu.“

Þegar tökur hófust heimsótti Ragnar tökustaðinn á Grundarfirði í nokkra daga, kynntist leikurunum, handritshöfundunum og tökuliðinu.

„Þá fékk ég enn betur á tilfinninguna hvernig tónlistin ætti að vera og hljóma. Litirnir á Grundarfirði höfðu mikil áhrif á hljóðfæravalið mitt. Litir og ljós, þetta er bara tíðni, alveg eins og tónar, og mín vinna felst meðal annars í því að finna réttu hljóðtíðnina við það sem við sjáum á skjánum.

Ég er bókmenntafræðingur að mennt þannig ég nálgaðist gerð tónlistarinnar á mjög táknrænum nótum. Ég byrjaði á því að lesa handritið vandlega, drekka í mig söguna og reyna að gera mér í hugarlund hvernig stemningin ætti að vera. Svo settist ég við píanóið og fór að semja stef og reyndi að fanga þessa stemningu. Tónlistin í Vitjunum er ansi bíóleg (e. cinematic) í samræmi við umfjöllunarefni þáttanna og hið vestfirska umhverfi sem blasir við. Ég notaðist mikið við kvenraddir við gerð tónlistarinnar, enda er þetta í grunninn mögnuð saga fjögurra kvenna.

Tónlistin miðar að því að hjálpa til við að segja söguna í Vitjunum og hún þróast í gegnum alla átta þættina samhliða söguþræðinum og innra ferðalag sögupersónanna. Hver einasti tónn, tónbil eða tónverk í þessum þáttum eiga sér dýpri merkingu eða þýðingu fyrir karakterana og þróun atburðarásarinnar.“

Ragnar samdi alls þrjá klukkutíma af tónefni fyrir sjónvarpsþættina og segir tónlistina sterklega tengd sögu þáttanna og staðnum sem þeir gerast á.

Lífið snýst bara um þetta eina verkefni meðan á því stendur. En sem betur fer þekkja vinir mínir, kærastan mín og hljómsveitarmeðlimir mig afar vel og hafa alltaf þolinmæði fyrir mér þegar ég fer í svona törna.

Tólf mánaða vinnutörn

„Allt í allt tók þetta um tólf mánuði, og í gegnum allt ferlið var alltaf samtal í gangi milli mín og Evu, og líka klipparans, Úlfs Teits Traustasonar, þar sem við köstuðum hugmyndum á milli og ræddum málin. Ég vann um þrjá klukkutíma af tónefni og megnið af því rataði í þættina. Alls eru þetta um 220 tónverk sem koma fyrir. Sum stefin koma oftar en einu sinni en hljóma aldrei eins. Í hverjum þætti taka þau breytingum samhliða ferðalagi sögupersónanna og atburðarásinni.

Um leið og Úlfur fór að senda mér búta hófst ég handa við að máta tónverkin mín beint við senur. Þegar þættirnir voru klipptir og tilbúnir þá hafði ég nokkra mánuði til að liggja yfir smáatriðum og klára upptökur og hljóðblanda. Ég á það til að verða heltekinn af því sem ég er að vinna að hverju sinni. Ég loka mig yfirleitt vikum saman af í tónverinu og vinn 12-14 tíma á dag. Lífið snýst bara um þetta eina verkefni meðan á því stendur. En sem betur fer þekkja vinir mínir, kærastan mín og hljómsveitarmeðlimir mig afar vel og hafa alltaf þolinmæði fyrir mér þegar ég fer í svona törna. Sem betur fer.“

Ragnar segist hafa fengið góð viðbrögð frá samstarfsfólki sínu í þáttaröðinni.

„Fyrir nokkrum vikum hittumst við öll; leikarar, framleiðendur og fleiri í Bíó Paradís og horfðum á fyrsta þáttinn saman. Margir leikaranna höfðu ekki heyrt neitt af tónlistinni fyrir sýninguna og hrósuðu tónlistinni eftir á. En ég bíð átekta eftir að heyra hvernig þjóðinni líst á, enda eru sex þættir eftir.“