Tæp fimm ár eru síðan hljómsveitin amiina sendi síðast frá sér plötu. Fjórmenningarnir í sveitinni hafa þó nýtt heimsfaraldurinn og dimman vetur til tónlistarsköpunar. Afraksturinn hefur verið þrykktur á vínyl og fær að njóta sín á þröng­skífunni Pharology sem kemur út 26. júní.

Tónninn fyrir það sem koma skal verður hins vegar gefinn strax á föstudaginn með smáskífunni Beac­on.

„Við erum öll, hvert um sig, náttúrlega starfandi í öðrum verkefnum en við höfum alltaf haldið amiinu lifandi,“ segir raftónlistarmaðurinn Guðmundur Vignir Karlsson, sennilega þekktari sem Kippi Kaninus, þegar hann er spurður hvort þau í amiinu hafi setið auðum höndum á síðustu árum.

„Þótt við höfum ekki gefið út þá höfum við verið dugleg að spila út um allar trissur en þetta er fyrsta útgáfan í allan þennan tíma.“

Óbeisluð amiina

„Þelið hjá okkur er alltaf mjög gott,“ segir Guðmundur Vignir um andann í hópnum við gerð Pharology. „Og við værum ekki að þessu ef við næðum ekki vel saman tónlistarlega og það hentar að við brennum öll fyrir að gera músík. Þessi vettvangur er líka svo skemmtilega opinn að það er svona pláss fyrir breiðari hugmyndir. Þetta er kannski ekki niðurnjörvað í einhverjar tónlistartegundir þannig að við getum meira leyft okkur að tilraunast innan samhengis amiinu.“


Hljómsveitin amiina var strengjakvartett þegar þær Hildur Ársælsdóttir, Edda Rún Ólafsdóttir, María Huld Markan Sigfúsdóttir og Sólrún Sumarliðadóttir stofnuðu hana seint á síðustu öld en 2009 bættust slagverksleikarinn Magnús Trygvason Eliassen og Kippi Kaninus í hópinn. Sveitin varð síðan kvartett aftur 2013 þegar Edda og Hildur sögðu skilið við amiinu.

Aftur í vitann

Guðmundur Vignir segir að í raun megi rekja lögin á nýju plötunni til ársins 2019 þegar amiina var fengin til þess að taka þátt í tvíæringi í Danmörku. „Við gerðum innsetningu í vita í Gilleleje, afskaplega fallegu og skemmtilega litlu þorpi, í Danmörku. Þar gerðum við innsetningu með hátalara á hverri einustu hæð í þessum Nakkehoved-vita í Gilleleje og allt sem við sömdum fyrir þennan tvíæring var vísir að þessari plötu.“

Vitinn, eða vitar almennt, eru enda einhvers konar merkingarmiðja plötunnar eins og nöfn laganna bera með sér. „Titill plötunnar, Pharology, myndi útleggjast sem vitafræði,“ segir Guðmundur Vignir.

Heimir Freyr myndar alls konar efni; matarlit, salt eða sýrur mjög þröngt í baklýstum skálum þannig að kosmískir kraftar losna úr læðingi.
Skjáskot/Heimir Freyr

„Þetta er nú ekki eiginleg fræðigrein per se. Þetta er svona samheiti yfir áhugann á vitum í rauninni. Þetta eru þrjú lög og titlarnir eru allir teknir úr þessum vitafræðum,“ segir Guðmundur og beinir sjónum að smáskífu föstudagsins. „Beacon myndi þá útleggjast sem einhvers konar leiðarljós á íslensku og við tengjum við vita og þarfnast ekkert frekari útskýringa.

Kvikmyndaljóð

Laginu Beacon fylgir tónlistarmyndband sem verður frumsýnt samhliða útgáfunni á föstudaginn. „Við fengum hann Heimi Frey Hlöðversson til að vinna myndbandið fyrir okkur,“ segir Guðmundur og veltir fyrir sér hvort Heimi Frey sé betur lýst sem vídeólistamanni eða kvikmyndalistamanni.

„Við fengum hann upphaflega til að gera vídeó við þessa smáskífu en við vorum svo rosalega hrifin af því sem hann var að gera að við enduðum með að fá hann til að gera kvikmyndaverk við alla plötuna. Við getum sagt að þetta sé einhvers konar kvikmyndaljóð við alla plötuna.“

Alls konar efnahvörf vekja hughrif í myndbandi Heimis Freys við Beacon.
Skjáskot/Heimir Freyr

Verkið verður sýnt í Bíó Paradís laugardaginn 19. júní og viku síðar kemur svo sjálf platan út. „Þetta verður á risaskjáum í bestu mögulegu gæðum og verður svona smá ferðalag,“ segir Guðmundur og auðheyrt að hann er ekki síður spenntur fyrir frumsýningu myndbandsins en útgáfu Pharology.

Glimrandi byrjun

„Þetta eru eitthvað um átján mínútur af tónlist. Platan er tíu tommu vínyll sem er búið að pressa og opin forsala er byrjuð á Bandcamp.com sem er svona vinur litla mannsins.

Dyggustu aðdáendur okkar, sem vilja fylgjast náið með okkur, fengu smá forskot og fengu að kaupa áður en forsalan byrjaði,“ segir Guðmundur um þau heppnu sem áttu þess kost að tryggja sér plötuna strax á póstlista sveitarinnar.

„Þetta hefur bara farið alveg glimrandi vel af stað,“ segir hann um viðbrögðin aðdáenda sem hafa ekki látið á sér standa.

Útgáfunni verður síðan fylgt eftir fram eftir sumri en frumsýning kvikmyndaverksins 19. júní verður án efa einn hápunktanna. „Það verður frítt inn en væntanlega verða einhverjar fjöldatakmarkanir í Bíó Paradís þannig að það verður auglýst sérstaklega hvernig fólk getur tryggt sér miða þegar nær dregur.

Við hlökkum bara mikið til að bjóða fólki í þetta ferðalag með okkur og leyfa þeim að njóta afrakstursins af þessu. Við erum mjög stolt af þessari útgáfu og ekki síst vídeóverkinu hans Heimis,“ segir Guðmundur og bætir við að tónlist og mynd tali þar ótrúlega vel saman. „Og við stöndum alveg á bak við þetta.“