MAKEathon er nýsköpunarkeppni á vegum Matís þar sem áhersla er lögð á nýtingu hliðarafurða úr sjávarútvegi. Viðburðurinn er hluti af verkefninu MAKE-it!, sem er fjármagnað af Evrópusambandinu.

Þegar Mörður Moli Gunnarsson Ottesen skráði sig til keppni hafði hann verið að velta mikið fyrir sér magnjarðgerð sem leysti ekki frá sér gróðurhúsalofttegundir. Þegar Maciej Zimoch og Lena Marczynska bættust í teymið hans þróaðist hugmyndin yfir í að búa til pappír sem inniheldur fræ sem verða að blómi þegar pappírinn er vökvaður.

„Þetta getur þróast yfir í margar vörur, eins og til dæmis pappír sem þú setur á ræktunarbeðið þitt og vökvar og þá spretta upp blóm. En við erum eins og er fyrst og fremst að skoða að búa til pappír sem hægt er að nota í nafnspjöld eða kynningarblöð,“ útskýrir Mörður.

„Það er hægt að nota þennan pappír til dæmis í kynningarefni fyrir hátíðir eins og Blóm í bæ. Það er rosalega sniðugt að vera með kynningarbækling sem koma blóm upp úr ef þú setur vatn á hann.“

Þau Maciej Zimoch, Lena Marczynska og Mörður Moli hafa unnið að því undanfarna viku að þróa pappírinn.

Mörður segir teymið hafa unnið að því að þróa pappírinn í nokkra daga en MAKEathon-ið hófst 10. september og úrslitin verða í kvöld.

„Við erum búin að gera prufur af pappír og prófa að prenta á hann. Við notum fiskbein sem bindiefni í pappírinn. Þannig náum við að gera pappír en ekki pappamassa. Fiskbeinin ná að halda saman pappírnum með fræjunum í,“ segir hann.

„Hann helst miklu betur en við áttum von á. Við bjuggumst við að allt myndi detta í sundur en þetta var alveg framar björtustu vonum. Í gær tókst mér að hanna þurrkunarkerfi og við náðum að búa til prufugerð af því líka.“

Beinin sem Mörður og liðsfélagar hans nota sem bindiefni er eyrnasteinn úr kolmunna.

„Það er vandamál að vinna þennan fisk því þetta bein eyðileggur búnaðinn og það er engin nýting til fyrir þetta beint. En efnasamsetningin er hreint kalsíumkarbónat en það er efni sem er líka notað sem bindiefni í pappír. Þessa vegna fórum við að prófa okkur áfram með þessa vöru.“

Blóm eru byrjuð að spretta upp úr pappírnum.

Innihaldsefnin eru úr íslenskum afurðum

Mörður segir að hann hafi verið einstaklega heppinn með liðsfélaga í keppninni en þau þekktust ekkert áður en þau byrjuðu að vinna sama fyrir rúmri viku.

„Ég var fyrstur inn á Zoom-spjallið sem var opnunin fyrir þennan viðburð. Ég sagði frá því að ég hefði verið í nokkur ár að skoða magnjarðgerð en væri fastur því mig vantaði líffræðing eða efnafræðing. Sá næsti sem hringir inn er Maciej og segir; ég er lífefnafræðingur. Þetta var bara eins og draumur að rætast. Svo er Lena vöruhönnuður og getur hannað allt kerfið.“

Til að byrja með veltu liðsfélagarnir fyrir sér ýmiss konar öðrum leiðum til að nýta afgangsafurðir úr fiskiðnaði, magnjarðgerð var upprunalega hugmyndin og Mörður segir að þau ætli að halda áfram að skoða þann möguleika eftir keppnina. Þeim datt líka í hug að búa til næringarríka blómapotta og ýmislegt fleira.

„En þegar Maciej fór að skoða efnainnihaldið í fiskbeininu og við fundum þetta bindiefni varð niðurstaðan að búa til pappír. Það er eitthvað sem mig hefur langað að gera í ótrúlega langan tíma, að búa til fræpappír.“

Mörður segir stefnuna að fara út í framleiðslu á pappírnum en innihaldsefnin eru öll íslenskar afurðir.

„Við setjum næringarefni í pappann til að styðja plönturnar. Við notum þorskbein til þess og munum bæta við fleiri úrgangsefnum sem styðja þær síðar. Allt sem er í þessari vöru er endurvinnanlegt á Íslandi. Það er enginn pappír endurunninn hér á landi í dag svo við erum að stíga skref í þá átt. Þetta eru mínar ær og kýr en ég stend fyrir námskeiðum í vistrækt og hef verið í fararbroddi í umhverfiskennslu síðustu ár. Við vonumst bara til að geta farið að taka við pöntunum bráðlega.“

Nánari upplýsingar um verkefnið eru hér