Halldóra Björg Bergþórsdóttir og Pétur Halldórsson sitja í stjórn hjá Landvernd en þau standa að afar áhugaverðum viðburði í Norræna húsinu þann 3. júní næstkomandi.

Á viðburðinum verður fjallað um hugtakið „vistheimt“, merkingu þess, áhuga Sameinuðu þjóðanna á fyrirbærinu og þýðingu þess fyrir íslenska náttúru sem og heiminn allan. En til hvers er eiginlega vistheimt?

„Frá landnámi hefur átt sér stað gífurlegt rask á náttúru landsins af hálfu mannsins. Það er aðallega snemma á síðustu öld, í tengslum við rask, sandfok og auðnir að umræðan um uppgræðslu hefur orðið háværari. Landgræðslustarf á sér rúmlega 100 ára sögu hér heima á meðan rask af völdum mannsins á sér yfir 1.000 ára sögu.

Orðið vistheimt, sem stytting á endurheimt vistkerfa, verður svo til hér á landi árið 1987,“ segir Pétur. „Landgræðsla er ekki alveg það sama og vistheimt. Landgræðsla er víðara hugtak sem snýst um að græða landsvæði. Vistheimt er samofin náttúruvernd. Þar er verið að endurheimta raskað vistkerfi sem var til staðar áður, með notkun tegunda sem voru hér á landi áður en maðurinn nam hér land,“ segir Pétur.

Skotgrafahernaður

„Hingað til hefur helsta vandamál málefnisins verið skortur á samtali. Sú umræða sem hefur átt sér stað hefur einkennst af skotgrafahernaði. Þar má nefna bitbeinið um lúpínuna eða grenitré á móti birki. Við hjá Landvernd höfum átt í samskiptum við 30 samtök og stofnanir og lagt mikla vinnu í að lyfta umræðunni á hærra plan til þess að ná raunverulegum árangri. Viðburðurinn snýst um það að koma saman öllum helstu sérfræðingum til að ræða hvað er hægt að gera til þess að stuðla sem best að vistheimt á Íslandi,“ segir Halldóra. „Einnig viljum við upplýsa og valdefla almenning til að taka þátt í samtalinu, en það er staðreynd að fólk er líklegra til þess að taka þátt og mynda sér skoðun á málefnum þegar það hefur fengið fræðslu um hvað málið snýst,“ bætir hún við.

„Það er mikilvægt að fólk sjái og upplifi hvað vistheimt er og hvað hún þýðir fyrir okkur. Sérstaklega til að geta tekið þátt í samtalinu og þrýsta á stjórnvöld og aðila sem eru tengdir landnotkun til að leysa þessi mál. Það er staðreynd að lög hafa verið samin vegna aukinna krafa frá samfélaginu og það er það sem við viljum gera með þessum viðburði,“ segir Pétur.

Það er mikilvægt að fólk sjái og upplifi hvað vistheimt er og hvað hún þýðir fyrir okkur. Sérstaklega til að geta tekið þátt í samtalinu og þrýsta á stjórnvöld og aðila sem eru tengdir landnotkun til að leysa þessi mál.

Mörg verkefni í gangi

Verulegur hluti Íslands er svæði sem hefur verið raskað á einhvern hátt og vistheimt er eitt öflugasta svarið við stærstu náttúruverndaráskoruninni á Íslandi. Vistheimt felur í sér að skilgreina hvaða vistkerfi var til staðar áður en rask átti sér stað og fara í markvissar aðgerðir til að komast nær fyrra horfi. Vistheimtaraðgerðir eru mismunandi eftir vistkerfum og hvernig rask er um að ræða. Þær spanna allt frá því að græða upp örfoka land og stuðla að landnámi náttúrlegs gróðurs, moka ofan í skurði til að endurheimta votlendi, dreifa birkifræjum, endurheimta staðargróður í vegfláum og námum eða að endurheimta náttúruleg búsvæði í þéttbýli. „Gríðarmörg flott vistheimtarverkefni eru í gangi í dag, eins og Votlendissjóðurinn og verkefni hjá Landgræðslunni og bændum. Það sem við sjáum fyrir okkur með þessum viðburði er að auka samtal og efla samstarf á milli allra þessara flottu verkefna,“ segir Halldóra.

„Eitt mikilvægt vistkerfarask sem hefur átt sér stað á Íslandi er á strandsvæðum vegna vegagerðar. Í fjörunni er fjölbreytt lífríki og gróður sem er mikilvægt fyrir loftslag, þorskaseyði og fleira. Fjölmörg dæmi eru um að þessi vistkerfi raskist og jafnvel hverfi við að þvera vegi yfir firði til dæmis, og verður þetta eitt af þeim málefnum sem verða mikilvæg á komandi árum,“ segir Pétur.

Dæmisagan Þórsmörk

Mörg landgræðslusvæði á Íslandi falla undir vistheimt. Stærsta verkefnið er Hekluskógar. Þar fer fram endurheimt birkivistkerfisins í kringum Heklu, alls nálægt 1% af Íslandi.

Þórsmörkin var eyðimörk en er í dag eitt af ástsælustu útivistarsvæðum landsins. Vistheimt hefur umbylt svæðinu í paradís. Mynd/Hreinn Óskarsson

Þórsmörk var ekki alls fyrir löngu snauð jörð, og orsökin var maðurinn.

Endurheimt votlendis hófst mun seinna en endurheimt þurrlendis og nær oft yfir minni svæði. Dæmi um slíkt eru Framengjar í Mývatnssveit. Eitt af nýrri votlendisendurheimtarsvæðunum og með þeim stærstu sem ráðist hefur verið í er á sunnanverðu Snæfellsnesi þar sem unnið var á um 100 hekturum í fyrrasumar. Eitt mest lýsandi dæmið um vistheimt sem hefur tekist vel er Þórsmörk, þar er um að ræða endurheimt birkiskóga. Þórsmörk er dæmisaga um eyðimörk með skógarleifum sem verður að vin. „Þórsmörk var ekki alls fyrir löngu snauð jörð, og orsökin var maðurinn. Vandamálið var að svæði voru ekki nógu vel girt til að hindra að búfénaður kæmist í viðkvæman gróður á svæðinu. Með tíð og tíma er Þórsmörkin nú orðin að einu gróðursælasta vistkerfi landsins,“ segir Halldóra.

Ferlinu má líkja við beinbrot

Það er ekki læknirinn sem lætur beinið gróa, heldur skapar hann umgjörð, spelku, svo að líkaminn og tíminn geti læknað brotið. Sama gildir með vistheimt. Við sköpum ákveðnar aðstæður og gefum náttúrunni frið og grið til þess að hjálpa sér sjálf,“ segir Pétur.

Af hverju er vistheimt svona mikilvæg núna?

„Ástæða þess að við erum að tala svona mikið um vistheimt einmitt núna er aukin þekking og vitneskja um áhrif vistkerfa á ýmsa þætti er varða loftslag, lífkerfi og annað. Af öllum þessum stóru málum sem heimurinn er að kljást við; loftslagsmál og tap á líffræðilegri fjölbreytni, er vistheimt ein af lykilaðgerðunum til að leysa þessi vandamál samstillt. Þannig eru loftslagsmál og tap á líffræðilegri fjölbreytni tvær hliðar á sama teningi, sem er röskun á vistkerfum. Þar er vistheimt lausn í sjónmáli,“ segir Pétur.

„Ef við tökum sem dæmi endurheimt á votlendi, sem er ein tegund vistheimtar, þá er verið að endurheimta líffræðilega fjölbreytni á svæðinu með því að veita tegundum sem lifa í votlendi lífvænlegt svæði. Stór hluti af kolefnislosun á Íslandi er vegna losunar frá röskuðum vistkerfum. Með vistheimt gefum við þeim tækifæri til að ná aftur upp hæfni sinni til að binda kolefni. Vistheimt stuðlar þannig að vernd og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni, dregur úr losun CO2 frá röskuðum vistkerfum og stuðlar að bindingu jarðvegs.

Ástandið hefur aldrei verið verra og heilbrigð vistkerfi eru grundvöllur lífsgæða okkar. Því er nauðsynlegt að taka á þessu vandamáli strax í gær, eða að minnsta kosti á þessum áratugi,“ segir Halldóra.

Svo má ekki gleyma því að náttúran er ekki þarna bara til að þjóna okkur. Það er viðhorfið sem hefur komið okkur í þessa stöðu. Heldur erum við hluti af náttúrunni og við þurfum að lifa í sátt og samlyndi við hana

Er hægt að fara lengra og hámarka kolefnisbindingu með því að breyta vistkerfum?

„Vissulega er það hægt, en ekki endilega æskilegt. Ef við myndum raða niður innfluttum trjátegundum eins og barri og ösp til að binda kolefni þá erum við að hunsa önnur vandamál sem geta stafað af röskuðum vistkerfum. Í tilfelli votlendis þá tempra slík svæði flóð og þurrka og geta minnkað líkur á gróðureldum. Ef þú ert búinn að þurrka upp votlendi til að hámarka kolefnisbindingu taparðu öðrum ávinningi. Þetta snýst um heildarnálgun,“ segir Pétur. „Svo má ekki gleyma því að náttúran er ekki þarna bara til að þjóna okkur. Það er viðhorfið sem hefur komið okkur í þessa stöðu. Heldur erum við hluti af náttúrunni og við þurfum að lifa í sátt og samlyndi við hana,“ segir Halldóra.

Viðburðurinn er í Norræna húsinu fimmtudaginn 3. júní og húsið opnar klukkan 16.00. Allir eru velkomnir og að auki er aðgengi fyrir hjólastóla. Kynningarnar standa yfir í um hálftíma og eftir það verða spurningar úr sal. Síðan verða náttúrufræðingar á staðnum og leiða fólk um Vatnsmýrina, en hún er glimrandi dæmi um vistheimtarverkefni sem er enn í gangi í dag.