Fyrir stafrænu byltinguna var vínyltæknin nærtækasta leiðin til að hlusta á tónlist. En síðustu ár hefur verið gríðarleg endurvakning vínylplötunnar á vesturlöndum, sem kristallast einna best í tölunum frá Englandi.

Ein af hverjum fjórum seldum plötum á Englandi, er vínylplata. Að mati Breska hljóðritunarsambandsins er það hæsta hlutfall síðan árið 1990.

Stafræn skráarþjöppun skemmir hljóðið

Andy Kerr, forstöðumaður markaðsmála hjá enska hljómtækjaframleiðandanum Bowers & Wilkins, telur að hér sé um að ræða tilfinningalega þætti, sem orsaki það að hlustendur kjósi frekar upplifunina sem felst í því að hlusta á vínylplötur.

Ein af hverjum fjórum seldum plötum á Englandi í dag er vínylplata.
Mynd/Getty

Hann segir vinsælar streymisþjónustur notast við stafræna skrárþjöppun til að spara gagnamagn. „Það hefur tilhneigingu til að þynna hljóðið,“ segir hann í samtali við breska blaðið The Guardian.

„Vínyll er andstæða þessarar þjöppunar og hefur tilhneigingu til að gera hljóðið gróskumikið og hlýtt,“ segir hann.

Upplifunin en ekki hljóðið

Kerr segist við sama tækifæri ekki telja að endurnýjaður áhugi á vínylforminu sé til kominn vegna áhrifa hljóðspekinga. „Ég held að það sem við sjáum gerast í vínylsölu sé ekki til komið vegna hljóðsins heldur vegna athafnarinnar sem er fólgin í því að spila vínylplötu,“ segir hann.

Vinsælar streymisþjónustur þjappa tónlistarskrám og við það getur skráin misst hluta af hljómgæðum sínum.
Mynd/Getty

„Breiðskífan neyðir þig svolítið til að hlusta áfram. Þú getur ekki skipt um lag á 30 sekúndna fresti vegna þess að þér líkar ekki hvernig lagið þróast. Þú ert líklegri til að hlusta í gegn,“ segir hann.

Úrvalið aldrei meira

Geoff Taylor, framkvæmdastjóri Brit- og Mercury- verðlaunanna, sagði í samtali við The Guardian að nú væri frábær tími til að vera tónlistaraðáandi. Úrvalið væri meira en nokkru sinni fyrr. „Þökk sé fjárfestingu plötuútgefenda í nýrri tónlist geta aðdáendur safnað tónlistinni sem þeir elska mest á vínyl, geisladiskum og jafnvel kassettum, allt á sama tíma og þeir geta notið þess að hafa aðgang að 70 milljónum laga til að streyma strax, hvenær sem er og eins oft og þeir vilja,“ segir hann. „Þetta gerir nýrri kynslóð listamanna kleift að búa til tónlist og viðhalda alþjóðlegum tónlistarmarkaði.“

Að sögn Geoff Taylor, framkvæmdastjóra Brit- og Mercuryverðlaunanna, hefur úrval af tónlist í heiminum aldrei verið meira.
Mynd/Getty

Þann 4. janúar munu lokatölur berast frá BPI um mest seldu vínylplötur ársins en bráðabirgðartölur, samkvæmt áætlun samtakanna er svohljóðandi.

  1. Voyage – Abba
  2. 30 – Adele
  3. Rumours – Fleetwood Mac
  4. Ed Sheeran
  5. Back to Black – Amy Winehouse

Þá eru kassettur líka á hraðri uppleið, en á lista yfir mest seldu kassettur ársins á Englandi eru:

  1. Sour – Olivia Rodrigo
  2. We‘re all alone in this together – Dave
  3. Chemtrails over the country club – Lana Del Rey
  4. Greatest Hits – Queen
  5. Music of the Spheres - Coldplay