Nú á dögunum kom út barnabókin Svefnfiðrildin eftir Erlu Björnsdóttur, en hún er sálfræðingur og doktor í líf- og læknavísindum og sérhæfir sig í rannsóknum á svefni og meðferðum gegn svefnleysi. Henni fannst vanta efni fyrir börn um mikilvægi svefns og hvíldar. Bókin fjallar um fjöruga stelpu sem heitir Sunna.

„Ég hef unnið með svefn og við svefnrannsóknir mjög lengi og hef mikið barist fyrir því að auka fræðslu um svefn. Þú sérð bara í menntakerfinu að það er rosalega lítil áhersla á svefn. Börn byrja strax í fyrsta bekk í heimilisfræði og íþróttum. Þau byrja að læra um næringu og hreyfingu en læra lítið um svefn, sem er þó alveg jafn mikilvægur. Mig langaði með bókinni að leggja mitt á vogarskálarnar til að auka fræðslu um svefn fyrir börn,“ segir Erla.

Svefninn er mystískur

Sjálf á Erla sex ára strák.

„Hann var fimm ára þegar ég var að skrifa bókina og ég spjallaði þá heilmikið við hann um svefn. Börn eru náttúrulega eins og svampar á þessum aldri. Þeim finnst þetta allt svo spennandi. Svefninn er auðvitað mjög mystískur. Það er margt sem gerist í svefni sem börnum finnst mjög áhugavert. Þannig kom hugmyndin, að flétta þessa fræðslu um mikilvægi svefns inn í eitthvert skemmtilegt ævintýri. “

Í lok bókarinnar er svo fræðsla sérstaklega ætluð foreldrum.

„Þar fer ég yfir það hvað er mikilvægt fyrir þau að hafa í huga þegar það kemur að svefni barna þeirra. Síðan er líka dagbók sem fólk getur fyllt út með börnunum. Þar er til dæmis hægt að setja sér jákvæð markmið eins og að fara nógu snemma að sofa og að sofa í eigin rúmi.“

Svefnfiðrildin hafa fengið jákvæðar viðtökur, í það minnsta frá syni Erlu og börnum vinkvenna hennar.

„Ég hef fengið skemmtileg viðbrögð hingað til og er spennt að heyra hvað börnum finnst um þetta. Ég hef ekki mikið unnið með börnum í mínu klíníska starfi þannig að það var gaman að fá að koma inn á þennan aldur líka. Þetta var góð tilbreyting frá því að vera að skrifa flóknar og erfiðar vísindagreinar,“ segir hún.

Urðu að fresta ráðstefnu

Árið 2017 gaf Erla út almenna fræðibók um svefn sem heitir einfaldlega Svefn. Erla stofnaði líka vefsíðuna Betri svefn. Nú í október stóð til að halda ráðstefnu um svefn og fá hinn heimsþekkta vísindamann Matthew Walker til landsins, en hann er höfundur metsölubókarinnar Why We Sleep. Því miður varð að fresta komu Matthews og ráðstefnunni vegna heimsfaraldurs COVID-19.

„Við erum búin að fresta ráðstefnunni til 1. febrúar. Hver veit hvort það gangi eftir? Við vonum það allavega. Við ætlum að halda þennan fyrirlestur um leið og það verður hægt. Matthew er orðinn heimsþekktur fyrirlesari og hefur náð að koma með ótrúlega skemmtilegan vinkil á svefninn. Það er ótrúlega gaman að hlusta á hann. Hann er smá orðinn eins og poppstjarna í þessum fræðum,“ segir Erla og hlær.

Það sé því draumur að fyrirlesturinn fari fram um leið og færi gefst.

„Ráðstefnan er fyrir alla. Við höfum líka mikið verið að vinna með fyrirtækjum sem eru í meira mæli að átta sig á mikilvægi þess að starfsfólk fái góðan svefn. Lélegur svefn starfsfólks getur bitnað mikið á starfseminni. Þetta hefur svo mikil áhrif á framleiðni fólks í vinnu og veikindadögum fjölgar hjá starfsmönnum. Ónæmiskerfið bælist til dæmis fái fólk ekki nægan svefn,“ segir Erla.

Áhrifin sjást síðar

Nýlega komu nýjar tölur frá Embætti landlæknis sem sýna að börn og unglingar hafi náð betri svefni á meðan heimsfaraldurinn hefur staðið yfir.

„Þetta gæti stafað að því að minna er um félagslega dagskrá og tómstundir og ef börn eru í fjarnámi þá fer minni tími í ferðalög á milli staða. Það er að sjálfsögðu jákvætt ef börn og ungmenni eru að hvílast betur nú en áður en við myndum vilja sjá varanlega bætingu á svefnvenjum. Að sama skapi má leiða líkur að því að fyrir suma geti reynst erfiðara að halda reglulegri rútínu og ef til vill frekar hætt við því í heimavinnu að fólk sé í náttfötum fram eftir degi og að óregla verði á hefðbundinni rútínu og svefnvenjum. En þetta er þarf að rannsaka nánar í framtíðinni,“ segir hún.

Bókin Svefnfiðrildin fæst í öllum helstu bókabúðum.

st

Bókin Svefnfiðrildin er myndskreytt af Auði Ómarsdóttur.