Við erum í fanta spilaformi eftir þennan túr og getum eiginlega ekki beðið eftir að spila fyrir framan okkar fólk. Það er nefnilega alltaf gaman að spila fyrir framan Íslendinga, sérstaklega í seinni tíð eftir að giggunum fækkaði hér á landi,“ segir Óskar Logi Ágústsson í hljómsveitinni The Vintage Caravan en hljómsveitin er nýkomin heim úr miklum túr með sænsku hljómsveitinni Opeth. Hljómsveitin heldur tvenna tónleika hér á landi, annars vegar sjöunda desember á Græna hattinum og hins vegar 13. desember á Hard Rock.

Á flestum tónleikum á túrnum voru 1.500-3.000 áhorfendur. Mynd: Elif Bell

Opeth er 30 ára gömul hljómsveit og þekkt í þungarokkssenunni. Flestir tónleikarnir voru með 1.500-3.000 áhorfendur en alls spiluðu þeir saman á 16 tónleikum víðs vegar um Evrópu. „Tónleikastaðirnir voru af fínustu sort. L´Olympia til dæmis í París þar sem Jimmy Hendrix brenndi gítar. Bítlarnir spiluðu þar einnig og okkur fannst mikill heiður að spila þar. Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn og Palladium í London, einir fínustu staðir borganna,“ segir Óskar en alls hefur hljómsveitin spilað á um 80 tónleikum á árinu.

„Við erum í fanta spilaformi eftir þennan túr og getum eiginlega ekki beðið eftir að spila fyrir framan okkar fólk,“ segir Óskar Logi söngvari The Vintage Caravan. / Mynd: Elif Bell

Óskar segir að söngvarinn Mikael Åkerfeldt sé gríðarlegur tónlistarspekingur og eigi yfir níu þúsund vínylplötur. „Hann er mjög skemmtilegur og við náðum vel saman. Hann fór strax að tala um íslenska tónlist og fannst Óðmenn frábærir, Trúbrot, Tatarar, Náttúra og Pelican svo nokkrir séu nefndir. Ég náði þó að fræða hann um Þursaflokkinn og við hlustuðum á Þursaflokkinn með þeim á túrnum, sem var helvíti skemmtilegt. Ég er alveg nörd í tónlist en hann er enn meiri og við smullum saman. Við förum með þeim á annan túr um Skandinavíu í janúar.“

Alexander, Stefán og Óskar spiluðu í nokkrum stórkostlegum tónleikasölum og leikhúsum á túrnum. Alexander og Stefán hafa verið aðdáendur Opeth frá barnæsku.

Opeth hefur verið til lengi og spilar framsækið rokk. Það er einstakt að hlusta á hljómsveitina spila og samspilið hefur lengi vakið eftirtekt.

Óðmenn, Trúbrot, Tatarar, Náttúra og Pelican og svo auðvitað Þursaflokkurinn komu við sögu í þessum túr sem er stórmerkilegt fyrir margar sakir.

Óskar segir að hann hafi alveg verið aðdáandi fyrir en fyrir hina hljómsveitarmeðlimi The Vintage Caravan hafi þessi túr verið draumur í dós. „Ég kynntist þeirra tónlist fyrir svolítið löngu á einhverju ættarmóti og varð hrifinn en ég fór aðra leið í hlutunum. Svo fóru þeir að skipta yfir í aðra stefnu og þá kom ég aftur inn. Strákarnir, bæði Alexander og Stefán hafa þó verið miklir aðdáendur og Opeth er einn þeirra helsti innblástur. Þannig að þetta var sérstaklega gaman fyrir þá. Við vorum allir í skýjunum en þeir voru yfir sig hrifnir því þeir hafa verið aðdáendur síðan þeir voru krakkar.“